Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 17:41:46 (517)

2002-10-14 17:41:46# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., VÞV
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[17:41]

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson:

Hæstv. forseti. Varðandi þá umræðu sem hér hefur farið fram um svokallað tryggingagjald tel ég rétt þar sem ég er nú staddur á þingi þessa dagana, að blanda mér í þá umræðu lítillega.

Fjármálasamskipti ríkis og sveitarfélaga hafa auðvitað marga snertifleti og það má margt segja um þau. Stundum hafa þau verið með ágætum, stundum ekki og þau snúast um fjölmarga hluti. Við erum t.d. þessa dagana að ræða um húsaleigubætur, samskipti ríkis og sveitarfélaga á því sviði. Við erum að ræða um bætur vegna fasteignaskatts, aðallega til sveitarfélaga í dreifbýlinu. Þetta eru stórmál sem þarf að jafna og ég hef fulla trú á að það takist. Við erum einnig að ræða um fjöldann allan af málum sem snerta sameiginlega fjármál ríkis og sveitarfélaga.

Töluverð umræða fór fram um tryggingagjaldið í nefnd sem skipuð var fulltrúum ríkis og sveitarfélaga. Það eru u.þ.b. fjögur ár síðan, og þá var m.a. rætt um tryggingagjaldið og fyrirhugaða hækkun sem hér er til umfjöllunar. Einnig var fjallað var um ýmis önnur atriði, m.a. áhrif einkahlutafélaga á fjármál fyrirtækja sem er orðin töluverð eins og fram hefur komið.

Í tengslum við þetta kom fram og það er nú kannski sá kjarni málsins sem ég vil að komi fram í umræðunni, að sveitarfélögin greiddu á sínum tíma sérstakt atvinnuleysistryggingagjald í Atvinnuleysistryggingasjóð. Einnig greiddu sveitarfélögin atvinnuleysisbætur til starfsmanna sinna. Þetta gagnrýndum við og um þetta varð töluverð umræða í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Síðan breyttist það þannig að sveitarfélögin greiða einungis tryggingagjaldið í dag en það var fellt út að sveitarfélögin greiddu atvinnuleysisbætur til starfsmanna sinna. Ekki hefur verið reiknað út hversu mikil upphæð það er í dag eða var á þeim tíma, en a.m.k. var um töluverðar upphæðir að ræða.

Ég vildi láta þetta koma fram við umræðuna. Sjálfsagt er að kanna það nánar hvaða fjármálalegar afleiðingar þetta hafði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, en það er ætíð svo þegar verið er að ræða um þessi fjármálalegu samskipti að um þau má deila og margt sem mætti betur fara. Ég vil ekki fullyrða um það á þessu stigi vegna þess að ég var ekki beinlínis undirbúinn undir þessa umræðu, að með því að fella niður að sveitarfélögin greiddu sérstaklega atvinnuleysisbætur til starfsmanna sinna, þá hafi verið komið til móts við sjónarmið fulltrúa sveitarfélaganna um að þessi hækkun á gjaldinu mundi hafa töluverðar afleiðingar, ekki bara fyrir sveitarfélögin, heldur líka fyrir fyrirtækin í landinu. Ég tel rétt, að nefna þessi atriði vegna þeirra athugasemda sem fram hafa komið undir umræðunni.