Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 17:51:39 (521)

2002-10-14 17:51:39# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., VÞV (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[17:51]

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er ég enginn sérstakur stuðningsmaður þess að hækka álögur á sveitarfélög um leið og verið er að hækka álögur á fyrirtækin í landinu og þá aðila sem borga þetta gjald. Við fylgjumst að sjálfsögðu vel með því hvernig þessi fjármálalegu samskipti ríkis og sveitarfélaga ganga fyrir sig. Það er margt þar í pípunum sem þarf að skoða, athuga og ræða. Fyrir örfáum árum hafði ég forgöngu um það sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, að farið yrði í heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga sem leiddi til þess að tekjustofnar sveitarfélaga hækkuðu um 4 milljarða samtals yfir landið. Auðvitað þarf að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga miklu oftar en á 10 ára fresti og ég hef í hyggju að beita mér fyrir því að það verði gert. Það þarf jafnvel að gera það á tveggja til þriggja ára fresti vegna þess að verkefni og áherslur breytast. Sveitarfélögin eru síður en svo sæl af þeim tekjustofnum sem þau hafa í dag.

En það eru mörg stór mál í deiglunni og ég vænti þess að fá stuðning, bæði ríkisstjórnar og Alþingis, til að tryggja sveitarfélögunum eins og kostur er nægilega tekjustofna til þess að sinna þeim lögboðnu verkefnum sem þau hafa með höndum.

Ég veit að það er erfitt í búi hjá mörgum sveitarfélögum í dag, einkum þar sem um mikla íbúafækkun hefur verið að ræða. Ég get fullvissað hv. þm. Kristján Möller um að það er full samstaða og fullur einhugur um það í nýrri stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að vinna heiðarlega að þessum málum þannig að sveitarfélögunum verði tryggður tilverugrundvöllur til að sinna verkefnum sínum í næstu framtíð. Það er skylda löggjafarvaldsins að minni hyggju, skylda ríkisstjórnarinnar, að sjá til þess. Ríki og sveitarfélög eiga að sjálfsögðu að vinna saman að því verkefni.