Alþjóðadagur kvenna í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:32:16 (523)

2002-10-15 13:32:16# 128. lþ. 10.91 fundur 171#B alþjóðadagur kvenna í landbúnaði# (aths. um störf þingsins), DrH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að minna á að í dag er alþjóðadagur kvenna í landbúnaði. Með honum vilja konur vekja athygli heimsins á að þær gegna lykilhlutverki í matvælaframleiðslu og því hve framlag kvenna í landbúnaði er stórlega vanmetið um allan heim. Það er staðreynd að konur leika stórt hlutverk í landbúnaði og í dreifbýli um allan heim.

Það er því fagnaðarefni að jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands hefur alþjóðadag kvenna til vegs og virðingar með því að halda ráðstefnu og hátíð fyrir konur sem gegna ábyrgðarstöðum innan félagskerfis bænda. Það er mikil fátækt og hungur í heiminum í dag og lykillinn að því að komast úr þeim vítahring er menntun og fræðsla. Það þarf að viðurkenna þá gífurlegu möguleika sem felast í sérþekkingu og framlagi kvenna við matvælaframleiðslu.

Það er viðurkennd staðreynd að starfsframlag kvenna við búrekstur er mikið. Margar þeirra vinna utan bús vegna þess að tekjur af búrekstri duga ekki til framfærslu fjölskyldunnar í sumum tilfellum og á það einkum við um sauðfjárbúin. Það er ekki auðvelt að fá uppgefnar tölur um konur í landbúnaði því að skráning á bændum er ekki með þeim hætti að það sé auðvelt að sjá hve margar konur reka bú. En þátttaka kvenna í félagsstörfum innan félagskerfis bænda hefur aukist ár frá ári. Þær eru mjög virkar í félagsmálum. Þær hafa unnið ötullega að uppbyggingu á sínum búum í ferðaþjónustu og handverki svo að eitthvað sé nefnt. En það þarf að gera betur. Á búnaðarþingi sl. vetur þar sem voru 48 fulltrúar voru aðeins átta konur. Í stjórn Bændasamtakanna sem skipuð er sjö mönnum eru tvær konur. Þar er engin kona í varastjórn. Ein kona er í stjórn Framleiðnisjóðs. Það er engin kona í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins. Því er nauðsynlegt að halda vöku sinni því enn er ekki orðið það jafnrétti sem við viljum sjá. Íslenskur landbúnaður þarf á konum að halda. Í þeim býr mikill mannauður sem þarf að virkja til góðra hluta og meta að verðleikum.