Alþjóðadagur kvenna í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:34:36 (524)

2002-10-15 13:34:36# 128. lþ. 10.91 fundur 171#B alþjóðadagur kvenna í landbúnaði# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Drífu Hjartardóttur fyrir að taka upp þetta mál undir dagskrárliðnum um störf þingsins og benda þingheimi á að í dag er alþjóðadagur kvenna í landbúnaði. Konur í landbúnaði hafa flestar verið hin hljóða stétt fram að þessu. Þær hafa fáar verið skráðar fyrir býlum þar til núna á allra síðustu árum að þær eru jafngildir bændur og þeirra eigimenn. En það þarf að styrkja stöðu bændakvenna. Þær eru að því sjálfar, vinna vel að sínum málum. Það þarf að auka réttindi þeirra, bæði hvað varðar lífeyrisgreiðslur og félagslega stöðu. Konur í bændastétt eru að hasla sér völl innan stéttarfélaganna, innan fagfélaganna og þó að þær séu fáar í dag trúi ég því að ekki líði mörg ár þar til þar muni gæta jafnræðis eins og hjá öðrum stéttum.

Til þess að svo megi verða þurfum við á hinu háa Alþingi að gæta þess að ekki fækki áfram í sveitum landsins, að búum fækki ekki og sveitir fari í eyði. Það er mikils virði að styrkja búsetuna. Það þarf meira en að hafa þar hefðbundnar framleiðslugreinar. Það þarf að styrkja búsetuna til þess að standa vörð um landgæði og menningarverðmæti og það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur en bein framleiðsla.