Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:45:38 (527)

2002-10-15 13:45:38# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er ágætt að hér fari fram umræða um þetta efni. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir frumkvæðið að því. Þetta er eitt af þeim skiptum sem ég held að Alþingi geti horft til baka og verið sátt við sjálft sig, fyrir að hafa verið framsýnt og sett lög fyrir fjórum árum sem í dag hafa áhrif í þá átt að takmarka samþjöppun í sjávarútvegi. Það var markmið þeirra laga þó að á þeim tíma væri langt frá því að nokkurt af fyrirtækjunum nálgaðist það þak sem Alþingi ákvað þá. Í dag nálgast fyrirtækin þá stærð að þessi lög eru farin að virka.

Þegar frv. var samþykkt var það reyndar þannig að Alþingi samþykkti hærri prósentu í heildarkvótanum en þáv. hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnin höfðu lagt til. Heildarkvótaþakið var í meðförum Alþingis hækkað úr 10 í 12%. Þannig er það enn þann dag í dag og var staðfest á síðasta þingi þó að sú breytingin hafi orðið á að ekki er lengur gerður greinarmunur á þeim fyrirtækjum sem eru í mjög dreifðri eignaraðild og öðrum hvað heildarmarkið varðar.

Í þessu togast hins vegar tvennt á. Annars vegar eru áhyggjurnar og hættan á að of fáir fari með aflaheimildirnar. Það er svo á markaði að ef of fáir véla um hlutina er hætta á að ákvarðanatakan verði ekki eins skilvirk. Á við það togast hins vegar hagræðingin. Það er hagræðing í stærðinni, stærðarhagkvæmni, og ef við skoðum íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru þau lítil miðað við þau stóru sjávarútvegsfyrirtæki sem þau eru að keppa við á erlendum vettvangi. En við höfum tekið þessa ákvörðun. Ég tók hana ásamt öðrum og stend við hana. Ég hef ekki uppi neinar áætlanir um að breyta frá því.

Hins vegar er kannski líka vert að skoða í þessu samhengi hversu stór íslensku útgerðarfyrirtækin eru miðað við önnur fyrirtæki á Íslandi. Í dag eða fyrradag var að koma út rit Frjálsrar verslunar um 300 stærstu fyrirtækin á Íslandi á síðasta ári. Þar kemur í ljós að stærsta sjávarútvegsfyrirtækið, Samherji, er 17. stærsta fyrirtækið á Íslandi. Velta þess er einungis brot af veltu stærstu fyrirtækjanna sem eru útflutningsfyrirtækin SÍF og SH. En þau versla auðvitað að stórum hluta líka með sjávarafurðir annarra landa í dag. Ef mundum taka nýjustu sameininguna, þ.e. ÚA, HB og Skagstrendings, mundi það ekki gefa okkur, miðað við tölurnar frá því í fyrra, fyrirtæki sem kæmist hærra á þessum lista en í svona 15. sæti. Ef við skoðum þetta út frá heildinni hér innan lands og miðum síðan við útgerðarfyrirtæki á alþjóðavísu eru íslensku útgerðarfyrirtækin smá. Það takmarkar hagræðinguna innan þeirra. Við höfum hins vegar tekið þessa ákvörðun og ég held að hún sé rétt, á þeim forsendum sem ég greindi frá áðan.

Hv. þm. spyr um hagræðingu, hvort ég sé tilbúinn til að láta fara fram greiningu á hagræðingu í sjávarútvegi. Það er tiltölulega stutt síðan slík greining var gerð. Þrír hagfræðingar, Ragnar Árnason, Benedikt Valsson og Ásgeir Daníelsson, gerðu skýrslu sem sennilega var birt fyrir tveimur árum eða svo þar sem greinilega kemur í ljós að hagkvæmni og hagræðing er fólgin í því sem hefur verið að gerast í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum.

Ég ætla ekki að neita því neitt fyrir fram að hægt sé að gera svona athugun aftur en án þess að hafa skoðað þessa hugmynd sérstaklega vil ég ekki svara spurningunni en bendi á að við getum síðan skoðað þetta síðar þegar við erum búnir að fara yfir áðurnefnda athugun sem er þó ekki eldri en tveggja ára gömul.