Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:55:27 (530)

2002-10-15 13:55:27# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mikil samþjöppun veiðiheimilda til einstakra hlutafélaga er staðreynd. Fyrri reynsla okkar af samþjöppun liggur fyrir. Hún hefur verið fjandsamleg fólkinu í sjávarbyggðunum. Hún vegur að starfsöryggi þess og hefur grafið undan kjölfestu í byggðinni.

Sáttin mikla um kvótabraskskerfið sem Framsókn og Sjálfstfl. veifuðu fyrir síðustu kosningar vorið 1999 var alger blekking eins og öllum sem það vilja sjá er nú þegar orðið ljóst. Kvótasetning smábátanna var að sjálfsögðu óþörf með öllu og keyrð fram af stjórnarliðum undir forustu hæstv. sjútvrh. og formanns sjútvn. Stefna stjórnarliða er að þjappa saman veiðiheimildum og láta kerfin falla saman. Staðfestingu þessa má finna í samþykkt frá síðasta vori þegar heimildir fyrirtækja til að eiga ákveðnar fisktegundir var aukin.

Það er hið yfirlýsta markmið, og í sjútvn. í morgun var það skýrt áréttað af Vilhjálmi Egilssyni, að dagakerfið ætti að sjálfsögðu að hverfa inn í kvótabraskið. Það hefur ávallt verið markmiðið. Auðvitað ætlar ríkisstjórnin að láta kerfið þróast yfir í eitt kvótabraskskerfi. Samþjöppun til stóriðju í sjávarútvegi er þeirra stefna. Frelsi einstaklinga til að hefja atvinnurekstur í fiskveiðum og viðhalda byggð sinni er löngu gleymt loforð og ,,fólk í fyrirrúmi`` hjá Framsfl. er steindautt loforð sem hefur aldrei náð til atvinnuréttinda fólksins í sjávarbyggðunum.

Vitanlega verða á nýjan leik, fyrir næstu alþingiskosningar, ofin ný leiktjöld. Nú fara stjórnarliðar að láta skoða eitt og annað. Hvalveiðum var stýrt í aðgerðarleysi fram yfir kosningar. Færeyska sóknarkerfið verður skoðað og verkið dregið fram yfir kosningar. Enn á ný er þjóðin sett í bið eftir breytingum sem stjórnarliðar ætla aldrei að hrinda í framkvæmd. Vonandi halda þeir ekki velli eftir kosningar.