Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:08:35 (536)

2002-10-15 14:08:35# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram er að mörgu leyti gagnleg en mér finnst þó gæta í henni ákveðins misskilnings og e.t.v. óþarflega mikils áhuga af hálfu sumra á því að verja óbreytt ástand. Staðreyndin er sú, herra forseti, að fyllsta ástæða er til að ræða þá stöðu sem við erum í. Alþingi þarf að vita hvert það stefnir með löggjöfina og við verðum að vera fólk til þess að horfa í eigin barm ef okkur sýnist að löggjöfin leiði þjóðina út á þá braut sem enginn vill sjá.

Útvegurinn hefur sérstöðu. Sú sérstaða markast af því að verið er að nýta sameiginlega auðlind og hún er takmörkuð, það komast ekki allir að. Þess vegna er erfitt að segja hvað fyrirtækin mega vera stór. Það er miklu frekar að menn eigi að svara og leitast við að svara þeirri spurningu hvaða rekstrarumhverfi við eigum að hafa til þess að jafnræði geti ríkt og til að menn geti og fái notið krafta sinna og hæfileika en við lokumst ekki inni við einokun og e.t.v. þá niðurstöðu að hér séu þeir aðilar að nýta auðlindina sem alls ekki eiga að gera það. Kerfið býður því miður upp á þann möguleika í dag.

Fiskvinnslan er allt annað. Hún lýtur sömu lögmálum og annar iðnaður. Þar mega fyrirtækin vera og eru mun fjölbreyttari og fleiri. Það er allt annað.

Herra forseti. Ég set spurningarmerki við hina meintu hagræðingu. Það kann vel að vera að hagræðing hafi átt sér stað með því að fyrirtækin hafi náð tiltekinni stærð. En það er miklu fleira sem liggur undir og það vita menn ef þeir horfa á það sem er að gerast á markaðnum. Fleira liggur undir en vilji til hagræðingar og niðurstaðan leiðir líka fleira í ljós en einbera hagræðinguna, og þá er ég ekki að tala um, herra forseti, hagræðingu fyrir einhverja sérstaka heldur fyrir samfélagið í heild sinni.