Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:44:58 (539)

2002-10-15 14:44:58# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður hve mikil áhersla er lögð á tæknileg atriði í þessu frv., tæknileg atriði eins og t.d. hverjir séu kynforeldrar barna. Að uppeldi barna kemur fjöldi fólks og oft foreldrar sem ekki eru endilega kynforeldrar, þ.e. fósturforeldrar eða foreldrar sem hafa ættleitt barn og teljast fullkomnir foreldrar að öllu leyti gagnvart lögum.

Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. hvort vegi þyngra í þessari tæknilegu útfærslu, að reyna að finna út hvert er kynforeldri, 2. gr. sem segir að eiginmaður móður barns teljist faðir þess ef það er alið í hjúskap þeirra eða 10. gr. sem segir að maður sem telur sig föður barns geti krafist faðernismáls. Er það þannig að þó að barn fæðist í hjónabandi þá geti menn þurft að una því að einhver maður úti í bæ geri kröfu til þess, fari í faðernismál, krefjist þess að móðirin fari í blóðprufu og allt slíkt til að hann verði sannaður faðir þess eða ekki? Hvort vegur þyngra í lögunum?

Þessi gullvæga tæknilega regla er brotin í 5. og 6. gr. þar sem kona sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun telst móðir barns þó að hún sé ekki kynforeldri, ef hún hefur t.d. fengið frjóvgað egg. Og í 6. gr. er sagt að faðir sem hefur gefið sæði til tæknifrjóvgunar teljist ekki foreldri þó hann sé sannarlega kynforeldri.