Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:51:46 (543)

2002-10-15 14:51:46# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:51]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. dómsmrh. að hér er mikilvægt mál á ferðinni, mikilvægt til verndar börnum og mikilvægt gagnvart þeim foreldrum sem slitið hafa sambúð. Lít ég þá til tveggja greina, fyrst 43. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Dómari getur, ef þörf er á, beint þeim tilmælum til barnaverndarnefndar í því umdæmi þar sem barn er búsett að nefndin skipi barninu tilsjónarmann.`` --- Dómari ,,getur``.

Og síðan 48. gr.:

,,Við rannsókn máls getur sýslumaður óskað liðsinnis barnaverndarnefndar eða sérstaklega tilnefnds tilsjónarmanns í sambandi við framkvæmd umgengnisréttarins.``

Ótal feður hafa haft samband við mig sem hafa lent heldur betur í hremmingum vegna umgengnisréttarins. Og ég vænti þess, herra forseti, að allshn. taki þetta mál sérstaklega til skoðunar því að í dag geta liðið tvö ár, jafnvel á þriðja ár frá skilnaði án þess að t.d. faðir hafi nokkurn möguleika eða rétt á umgengni við barn sitt. Það virðist vera svo í dómskerfinu að menn verða að bíða mánuðum saman eftir að komast að hjá sýslumanni eða öðrum embættismönnum til að leita réttar síns, þrátt fyrir að þeir greiði og sinni öllum þeim greiðslum sem þeim ber. Jafnvel eru dæmi um að feður taki þátt í fermingarveislu barna sinna en verði að standa úti.

Hér er því ekkert smámál á ferðinni, fyrst og fremst réttargæsla vegna barnanna en einnig hve margir feður hafa lent í ógöngum og hreinlega lent utan gátta við allt kerfi varðandi slík mál ef móðirin hefur það sterka stöðu í málinu að hún getur jafnvel neitað vikum og mánuðum saman að barn mæti til viðræðna við þá aðila sem vissulega hefur þurft, t.d. félagsráðgjafa eða sálfræðinga. Ef móðirin neitar því þá er bara ekkert gert í málinu. Og svo líður jafnvel á þriðja ár. Þetta er ófremdarástand sem auðvitað þarf að taka á.