Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:54:08 (544)

2002-10-15 14:54:08# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að því miður eru of mörg dæmi um að slík mál verða mjög erfið við að eiga og taka e.t.v. of langan tíma. Ég held að það sé e.t.v. fyrst og fremst vegna þess að þá eru deilur milli foreldra sem erfitt er að leysa og því miður verða börnin allt of oft bitbein í slíkum deilum.

Varðandi það orðalag í frv. að dómari ,,geti`` leitað eftir aðstoð sérfræðinga o.s.frv., þá er það vegna þess að verið er að undirstrika það að sem betur fer eru nú mörg mál þar sem hlutirnir ganga vel fyrir sig og við þurfum ekki á slíkri aðstoð að halda.

En ég vil líka fá að rifja það upp að ég beitti mér fyrir því að tekin var upp svokölluð sáttaráðgjöf hjá sýslumönnum einmitt við foreldra sem standa í erfiðum deilumálum og sú ráðgjöf hefur komið mjög vel út. Ég vonast því til þess að við sjáum lausnir á fleiri svona málum.

En það er vissulega rétt hjá hv. þm. að einstæðir feður hafa nokkuð kvartað yfir þessum málaflokki og verið er að taka á ýmsum málum í frv. sem snúa að þeim kvörtunum. Ég benti á það áðan að þessi réttur feðra til að fara í mál til að fá faðernisviðurkenningu er auðvitað í jafnréttisátt.