Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 15:28:46 (550)

2002-10-15 15:28:46# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að víkja aðeins að þeim tveimur frv. sem hv. þm. ræddi í tengslum við frv. til nýrra barnalaga sem við fjöllum hér um. Ég vil segja það fyrst að það er auðvitað rétt að hv. þm. hefur rætt þessi mál, um rétt feðra til að fara í faðernismál og velt því fyrir sér af hverju ekki væri búið að setja það fyrr í lög. Þessi dómur er frá árinu 2000 en þá var hafin heildarendurskoðun á barnalögunum og var talið rétt að bíða þar til hún hefði farið fram þannig að í einu og sama frv. kæmu fram allar þær breytingar sem talin var þörf á.

Varðandi það að sameiginleg forsjá verði meginreglan þá er það auðvitað svo að foreldrar geta að sjálfsögðu samið um sameiginlega forsjá. Þeim er það frjálst. Þessi sjónarmið komu auðvitað fram í umsögnum sem bárust til sifjalaganefndar, hvort hafa ætti það sem meginreglu. Þar komu líka fram sjónarmið um að rétt væri að styðjast áfram við ríkjandi fyrirkomulag á þessum málum.

Mig langar til þess að vitna, með leyfi virðulegs forseta, í greinargerð í frv. neðst á bls. 50 og áfram á bls. 51, þar sem segir:

,,En þau sjónarmið komu einnig fram að rétt væri að styðjast áfram við ríkjandi skipan þessara mála, þar sem það stuðlaði að því að foreldrar, sem slíta samvistir, ræddu um málefni barna sinna í tengslum við samvistarslitin og leiddu hugann að því hvaða forsjárskipan kæmi þeim raunverulega best. Því ætti ekki að hrófla við þessu fyrirkomulagi nema að vel athuguðu máli og sérstök fagleg rök mæltu með breytingum á því.``

Á hinn bóginn leggur sifjalaganefnd til aðrar breytingar í tengslum við þetta til að styrkja enn frekar hina sameiginlegu forsjá og er m.a. vísað til þess að sýslumönnum verði heimilað að úrskurða í ágreiningsmálum foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns samkvæmt staðfestum samningi um umgengni og meðlag, en slík heimild er ekki fyrir hendi í dag.