Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 15:46:56 (555)

2002-10-15 15:46:56# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[15:46]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka fyrst hæstv. dómsmrh. fyrir þetta frv. Hér er tekið heilsteypt á barnamálum. Það er margt mjög gott í þessu frv. og ber þar kannski helst að nefna sáttaráðgjöf sem þegar er komin í framkvæmd og hefur gefið afskaplega góða raun.

Hins vegar er ýmislegt líka gagnrýnivert. Það verður oft þannig að maður talar kannski meira um það sem er ekki í lagi heldur en hitt því það er óþarfi að ræða um það sem er í lagi.

Það sem mér finnst ekki nógu gott í þessu frv. er hugtakið ,,foreldri`` --- faðir og móðir. Það er út og suður í frv. Í 1. gr. er talað um að barnið eigi rétt á að þekkja ,,báða`` foreldra sína. Þar virðist vera gengið út frá því að börn eigi tvo foreldra sem er líka erfðafræðilega yfirleitt gangurinn. Ef litið er fram hjá einstökum meyfæðingum í mannkynssögunni eiga menn erfðafræðilega tvo foreldra, kynforeldra.

En menn eiga fullt af öðrum foreldrum. Menn eiga fósturforeldra, stjúpforeldra o.s.frv. Það eru margir sem ganga börnum í foreldrastað --- sem betur fer --- og það eru ekki endilega kynforeldrar, langt í frá. Og mér finnst að í þessu frv. þurfi menn að taka nákvæmlega fram hvað átt er við vegna þess að í öðrum greinum er talað um foreldra eins og ekkert sé en þá er ekki átt við kynforeldri heldur þá foreldra sem sjá um framfærslu eða uppeldi barnsins.

Í 5. og 6. gr. er hreinlega sagt að erfðafræðilegir foreldrar séu ekki foreldrar. Þar er t.d. móðir sem hefur þegið egg að gjöf sögð móðir barnsins þótt hún sé það sannarlega ekki erfðafræðilega. Og sama gerist ef barnið er getið með gjafasæði, þá er eiginmaður konu eða sambýlismaður sagður faðir barnsins þótt hann sé sannarlega ekki erfðafræðilegur faðir þess. Menn eru því ekki alveg nógu rétttrúaðir í þessu annars rétttrúnaðarfrv. Mér finnst galli að frv. skuli byrja með þessari skilgreiningu á faðerni og móðerni sem í mínum huga skiptir ekki stóru máli fyrir uppeldi barna. Það sýnir helst að þetta er eiginlega lögfræðileg skemmtun manna, að setja upp nákvæmar skilgreiningar um hvað er faðir og hvað er móðir og að það skuli vera kynforeldrar. Ofuráhersla er lögð á að einhver dulin bönd séu milli kynforeldra og barns sem ég tel að sé langt í frá, og alls ekki til.

Ég hefði t.d. viljað sjá frv. byrja með forsjármálum barna sem ég tel að skipti miklu meira máli en hverjir eru kynforeldrar barnsins úti um allan heim.

Í 2. gr. er líka sagt að maður sem býr með konu, eiginmaður hennar eða sambýlismaður, skuli teljast faðir barns hennar. Hann þarf náttúrlega ekki endilega að vera erfðafræðilegur faðir þess, eins og dæmin sanna.

Það hefur verið talað um jafnréttismál í þessu sambandi, að það sé jafnréttismál karla og kvenna að karlar eigi rétt á því að vera aðilar að faðernismálum. Það má til sanns vegar færa en ég vil benda á að náttúran er ekkert jafnréttissinnuð í þessu máli. Það er nefnilega þannig, herra forseti, að þegar barn kemur undir liggur það yfirleitt mjög skýrt fyrir hver móðirin er en það liggur ekkert fyrir hver faðirinn er, og hann þarf ekki einu sinni að vita af því. Móðirin veit sko aldeilis af því, herra forseti, hún tekur eftir því ef barn kemur undir. Og þetta er að sjálfsögðu ekkert jafnrétti. Ég held að alveg útilokað sé að reyna að koma jafnrétti inn í þetta mál vegna þess að náttúran er ekkert jafnréttissinnuð, ekki að þessu leyti. Það að tala um jafnréttismál í þessum skilningi er alveg út og suður. Móðirin gengur með barnið, fæðir það og verður sko aldeilis vör við það þegar barn kemur undir en faðirinn --- (ÞBack: Finnur ekkert fyrir því.) --- finnur ekkert fyrir því og þarf ekki einu sinni að vita af því, herra forseti. (ÞBack: Synd fyrir hann.) Oft synd, já, oft er það synd fyrir föðurinn.

Í 28. gr. er loksins farið að tala um það sem mér finnst skipta verulegu máli, forsjá barnsins og hvernig henni skuli háttað. Og síðan er talað um framfærsluskyldu og annað slíkt. Það eru atriðin sem skipta barnið mestu máli, herra forseti. Og þarna er verið að tala um sjálfsagða hluti, eins og oft í lögum, foreldrum beri að annast barn sitt, sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum. Nema hvað, herra forseti, nema hvað? Menn telja samt skylt að setja þetta í lög.

Hins vegar finnst mér vanta í þessi lög skyldur á hinn aðilann, þ.e. barnið. Ég vil nefnilega setja inn í þessi lög, og ég beini því til hv. nefndar sem fær málið til umsagnar, að börnum beri að hlíta reglum foreldra sinna og hlýða foreldrum sínum enda taki reglurnar mið af aldri barnsins og þroska. Þetta er sjálfsagt ákvæði, ekki satt, herra forseti, nákvæmlega eins og hitt. En ég tel að þetta sé mjög mikilvægt. Menn kvarta undan agaleysi í skóla og að agaleysi leiði svo til eineltis sem oft leiðir af sér mikla harmleiki fyrir viðkomandi börn. Agaleysið í skólum er ekki vegna annars en þess að börn hafa ekki lært að hlýða. Og það er svo sjálfsagt að barn hlýði foreldrum sínum og forsjármönnum, kennurum og öðrum, að það er öllum til góðs, alveg sérstaklega barninu, að það kunni að hlýða. Þess vegna vil ég að nefndin setji inn í frv. að barni beri að hlýða foreldrum sínum og hlíta settum reglum þeirra.

Í forsjármálum eru því miður oft óskaplega mikil sárindi og mikil heift vegna skilnaðar foreldra. Börnin líða að sjálfsögðu fyrir það. Þegar fólk skilur er það stundum ekki bara að skilja við maka sinn heldur börnin líka. Það hefur komið fram hérna að það eru ótrúlega margir feður sem skilja við börnin sín líka og vilja ekki hafa samneyti við þau. Það hefur afskaplega slæm áhrif á börnin. Þess eru líka dæmi að mæður vilji að börnin þeirra skilji við feðurna, og neita allri umgengni. Þetta eru þekkt dæmi sem því miður eru allt of algeng.

Ég er hlynntur því að menn reyni að bera sáttaklæði á þessi vopn og þess vegna er sáttaráðgjöfin í 33. gr. mjög mikilvæg.

Eins og ég segi, herra forseti, tel ég að foreldraskyldur og forsjá barns og sá kafli sé mikilvægasta ákvæði frv. og hefði átt að vera fremst. Inn í greinina um þessa sjálfsögðu skyldu foreldra að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu vil ég að komi líka þau sjálfsögðu ákvæði að börnum beri að hlýða foreldrum sínum.