Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 16:03:48 (557)

2002-10-15 16:03:48# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[16:03]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir mjög málefnalega umræðu um þetta frv. til barnalaga. Ég tek undir með þeim að ég tel að það sé ákaflega mikilvægt mál og horfi til réttarbóta bæði fyrir börn og foreldra. En að sjálfsögðu þegar verið er að fjalla um frv. til barnalaga er auðvitað rauði þráðurinn í gegnum slíkt frv. hagsmunir barnsins.

Nokkrar athugasemdir og spurningar komu fram hjá hv. þm. Ég hygg að sumum þeirra hafi þegar verið svarað en vil þó nefna nokkur atriði hér.

Ef ég byrja á síðasta hv. ræðumanni, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, þá nefndi hún m.a. að nauðsynlegt væri að tryggja samræmi milli barnalaga og barnaverndalaga. Ég er auðvitað alveg sammála því og benti á það raunar í framsögu minni að ég vildi að allshn. tæki til skoðunar ákveðin atriði sem m.a. félmrn. hefur bent á, þannig að það sé skýrt.

Hún ræddi líka um skilgreiningar á hugtakinu ,,forsjá`` og spurninguna um hvenær börn eigi rétt á að eiga aðild, hvenær foreldrar eigi að hafa barn með í ráðum og hvenær sé komið að sjálfsákvörðunarrétti barns til ákvörðunar í ýmsum málum.

Nú er í barnalögum í sjálfu sér ekki hægt að telja upp öll þau svið þar sem þetta álitaefni getur komið til athugunar. Hv. þm. nefndi t.d. ákvarðanir varðandi ráðgjöf og aðgerðir hjá læknum. Ég held að það mætti athuga, ef hv. þingmenn telja að þarna þurfi að gera breytingar á, að setja sérlög um þessi atriði.

Ég vil fá að benda á að þegar sjálfræðisaldurinn var hækkaður úr 16 í 18 ár þá var megináherslan lögð á aukna ábyrgð foreldra. Því væri nú kannski skref aftur á bak að taka aftur upp sjálfsákvörðunarrétt barna og unglinga undir 18 ára aldri í ýmsum málum.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir ræddi m.a. um 5. og 6. gr. frv. varðandi tæknifrjóvgun. Það er rétt sem komið hefur hér fram í umræðum í sambandi við 5. gr. að þar er tekið sérstaklega á því atriði þegar um gjafaeggfrumu er að ræða. Í athugasemdum með 5. gr. segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Greinin er nýmæli. Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um móðerni barns sem getið er við tæknifrjóvgun. Vissulega gæti móðerni barns aðeins orðið sérstakt álitamál ef við tæknifrjóvgun er notast við gjafaeggfrumur en ekki eggfrumur hlutaðeigandi konu. Þykir rétt að taka af öll tvímæli um að það er ávallt sú kona sem gengur með og elur barn sem er móðir þess, óháð því hvort barn er getið með eggfrumum hennar sjálfrar eða gjafafrumum.``

Þetta er því alveg skýrt hér.

Hún nefndi líka 43. gr. og velti fyrir sér hlutverki tilsjónarmanna og hlutverki barnaverndarnefnda og tók fram að rétt væri að allshn. skoðaði þetta sérstaklega. Ég tek undir það, enda er þetta eitt af þeim atriðum sem ég nefndi í framsögu minni.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ræddi m.a. um sáttameðferðina og velti því fyrir sér hvort rétt væri að slík meðferð yrði gerð að skyldu fyrir foreldra að nýta sér eins og er í Noregi. Sifjalaganefnd sem fór vel og vandlega yfir þetta mál, og m.a. yfir þá skýrslu eða úttekt sem var gefin eftir þessa tilraun sem stóð yfir í nokkuð langan tíma hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík, taldi ekki rétt að fara þá leið og vildi sem sé undirstrika að þetta væri í boði fyrir foreldra en væri ekki skylda og taldi að það væri hægt að ná meiri árangri með því móti.

Ég er alveg sammála því vegna þess að ég held að ekki sé hægt að skylda fólk í einhverja sáttameðferð. Annaðhvort vill fólk leita eftir sáttum eða ekki. Þess vegna er nú þessi niðurstaða hér.

Fleiri atriði voru nefnd. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gagnrýndi frv. nokkuð fyrir það hvernig það er uppbyggt, m.a. að byrjað væri á að skilgreina svona í frv., t.d. í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína.``

Og síðan aftur í 2. gr., með leyfi forseta:

,,Eiginmaður móður barns telst faðir þess ef það er alið í hjúskap þeirra.``

Það er auðvitað svo að frv. nær ekki bara til kynforeldra, svo það komi nú alveg skýrt fram hér, heldur líka til stjúpforeldra og fólks sem er í sambúð með foreldrum barna. Og í ættleiðingarlögum þar sem talað er um kjörforeldra þá hafa þeir nákvæmlega sömu stöðu og kynforeldrar. Ég tel rétt að undirstrika þetta hér, virðulegi forseti.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal velti upp ýmsum athugasemdum sem ég geri ráð fyrir að þingnefndin muni fjalla um. Þó held ég að kannski verði erfitt að verða við sumum þeim athugasemdum sem þar komu fram, en tel þó rétt að ýmis atriði verði þar skoðuð.

Hv. formaður allshn., Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, minntist á álit sérfræðinganna sem er fskj. með frv., þar sem segir á bls. 109, með leyfi forseta:

,,Í þessu tilliti vill hópurinn leggja áherslu á að með talsmanni er átt við fagmann á sviði sálfræði, barnageðlækninga eða félagsráðgjafar.``

Aðvitað má segja sem svo að sjálfsagt gætu fleiri sérfræðingar komið að gagni í slíkum málum. En þarna er fyrst og fremst átt við talsmann sem er barninu til stuðnings. Þess vegna hygg ég að þessir sérfræðingar séu nefndir hér sérstaklega.

Hún fjallaði líka talsvert um sameiginlega forsjá eins og ég gerði hér áður út af frv. hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og spurði m.a. um þá könnun sem talað er um í greinargerð með frv. á bls. 50. Sú könnun er í ritinu Áfram foreldrar eftir dr. Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, og Nönnu K. Sigurðardóttur félagsráðgjafa. Þetta eru mjög athyglisverðar rannsóknir um sameiginlega forsjá. En það er alveg rétt hjá hv. þm. að þar kemur líka fram að 29% kvenna sögðust hafa slæma reynslu af þessu fyrirkomulagi. Ég veit ekki til þess hvort það hefur verið rannsakað eitthvað frekar af því þetta er nú tiltölulega nýleg könnun, en mér finnst þó sjálfsagt að það sé skoðað.

Nú er það svo varðandi sameiginlega forsjá að algjör grundvöllur þess að vel takist er að foreldrar séu sammála um það hvernig eigi að fara með t.d. dvalarstað barns, skólagöngu og ýmsa aðra þætti sem foreldraskyldur beinast jafnan að. Það geta komið upp erfiðleikar eftir að foreldrar hafa samið um sameiginlega forsjá ef þessi samningur þeirra gengur ekki eftir í einu og öllu.

Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir heimild til að sýslumönnum verði heimilað að úrskurða í ágreiningsmálum foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns samkvæmt staðfestum samningi um umgengni og meðlag, en slík heimild er ekki fyrir hendi í dag. Þarna er sifjalaganefnd í raun að leggja til að þetta úrræði um sameiginlega forsjá verði styrkt enn frekar.

Einnig var spurt um 1. mgr. 75. gr. frv. þar sem fjallað er um ákvæði 15.--19. gr. stjórnsýslulaga. Ég er sammála hv. þm. um að þau lög eiga þá sérstaklega við um þetta atriði sem nefnt er í greininni.

Virðulegi forseti. Auðvitað mætti ræða frekar mörg atriði í þessu stóra og mikla frv. en ég held að ég láti það vera að sinni. Hv. allshn. á eftir að fara vandlega yfir málið.

Ég vil leggja á það áherslu enn og aftur að frv. er mjög vandað. Vinna við frv. hefur staðið yfir alllengi og leitað hefur verið eftir umsögnum frá fjölmörgum aðilum í þjóðfélaginu sem hafa komið með ábendingar sínar til sifjalaganendar. Hún hefur farið yfir þær allar og skoðað vel og vandlega og ýmsar þeirra hafa verið teknar upp í þetta frv. Ég tel því að góð sátt ætti að nást um frv. í þjóðfélaginu verði það að lögum.

Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu um frv. og vona að við getum afgreitt það sem fyrst á hinu háa Alþingi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og feli í sér mikla réttarbót.