Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 16:16:06 (558)

2002-10-15 16:16:06# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Á meðan hæstv. dómsmrh. fjallaði um það sem segir í þessari skýrslu hugleiddi ég að sameiginleg forsjá foreldra hefði gengið misvel, foreldrar hafa verið misánægðir og árangurinn misgóður. Ég velti fyrir mér hvort fram hafi farið á vegum ráðuneytisins einhver könnun á því hvernig sýslumenn og fulltrúar þeirra hafa sinnt leiðbeiningarskyldunni. Ungir foreldrar sem hafa skilið að skiptum hafa bent mér á að fyrir það fyrsta sé ósköp lítið gert í því að upplýsa þá um það hvað í rauninni felist í forsjá. Kannski er það eitthvað sem ætti að upplýsa fólk betur um þegar það gengur í hjúskap, ef því er að skipta. Ég hef líka heyrt að svolítil brögð séu að því að leiðbeiningarskyldan sé eingöngu bókuð, skráð að leiðbeint hafi verið, fólki sagt hvað felist í sameiginlegri forsjá, hver sé réttur og skylda á hvoru foreldri fyrir sig, en að leiðbeiningarskyldunni sé kannski ekki sinnt eins og þörf væri á.

Og spurning mín til hæstv. dómsmrh. er þá hvort einhver könnun hafi verið gerð á því hver raunveruleikinn er gagnvart þessari áhvílandi leiðbeiningarskyldu.