Útlendingar

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 16:19:49 (560)

2002-10-15 16:19:49# 128. lþ. 10.6 fundur 168. mál: #A útlendingar# (útlendingar frá EFTA-ríkjum) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002.

Frumvarp þetta felur í sér breytingar á lögum um útlendinga til samræmis við ákvæði nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, svonefnds Vaduz-samnings. Samkvæmt honum skulu reglur EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga einnig gilda gagnvart EFTA-ríkjum sem ekki eru aðilar að EES, þ.e. Sviss.

Vaduz-samningurinn hefur, sem kunnugt er, þegar öðlast gildi og var ýmsum lögum breytt til samræmis við ákvæði hans sl. vor, sbr. lög nr. 76/2002. Frv. til laga um útlendinga, sem þá var til meðferðar í þinginu, var hins vegar ekki breytt og er því nauðsynlegt að breyta lögunum nú. Er gert ráð fyrir að breytingarnar samkvæmt frv. öðlist gildi þann 1. janúar 2003 en þá öðlast hin nýju lög um útlendinga gildi.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. allshn. og 2. umr.