Skráning skipa

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 16:33:34 (562)

2002-10-15 16:33:34# 128. lþ. 10.7 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[16:33]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum nú, um breytingu á lögum um skráningu skipa, hefur áður sést í sölum þingsins, eins og kom fram í máli hæstv. samgrh. Það var einnig rætt á síðasta þingi.

Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um þetta frv. að þessu sinni. Það á auðvitað eftir að fara til umfjöllunar í samgn. Ég geri ráð fyrir því að þar muni m.a. sjómannasamtökin árétta afstöðu sína til frv. Mér sýnist, herra forseti, frv. vekja ýmsar spurningar eins og það er úr garði gert.

Í grg. með þessu frv. eru enn, með sama hætti og mig minnir að hafi verið á síðasta þingi, tekin dæmi um þær veiðar sem Íslendingar gætu sótt í ef þeir miða við möguleika á að fara í þurrleigu og undir fána annars ríkis. Þar er m.a. tekið mið af rækjuveiðum á Flæmingjagrunni. Ég fór um það mörgum orðum síðast þegar við ræddum þetta mál að ég teldi það vafasamt, miðað við a-lið 2. mgr. 1. gr. frv. en þar segir:

,,Áður en Siglingastofnun Íslands veitir heimild til þurrleiguskráningar skips skv. 1. mgr. skal liggja fyrir staðfesting sjávarútvegsráðuneytisins á því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

a. skip sem sigla undir þjóðfána Íslendinga gætu ekki stundað þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur``.

Í f-lið sömu málsgreinar segir:

,,f. þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti ekki því ríki þar sem þurrleiguskráning fer fram veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hagsmunum Íslendinga``.

Þegar þessir tveir liðir eru lesnir saman og raunveruleikinn skoðaður um veiðar, t.d. á Flæmingjagrunni, sem hér er samt notað sem rök í grg., fæ ég ekki séð, herra forseti, að þurrleiguskráning undir fána, t.d. Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháens, til veiða á Flæmingjagrunni fari saman við hagsmuni Íslands til framtíðar. Það er alveg ljóst að þegar við veiðum undir fána þessara ríkja, eins og við höfum reyndar gert í talsverðum mæli með íslensk skip, skráð þau undir fána þessara ríkja, höfum við í raun unnið inn veiðireynslu fyrir þessi ríki. Það þjónar ekki hagsmunum Íslendinga samkvæmt f-lið 2. mgr. 1. gr. frv. að halda áfram að skapa veiðirétt fyrir önnur ríki í samkeppni við okkur.

Við höfum hins vegar tekið upp veiðistýringu á Flæmingjagrunni fyrir Íslands hönd, sem aldrei skyldi verið hafa, einir með anga af okkar heimsfræga kvótakerfi þar. Við höfum ekki einu sinni klárað heimildir okkar þar, á Flæmingjagrunninu. Aðrar þjóðir eru hins vegar að veiða þar eftir þeim reglum sem almennt eru notaðar og önnur ríki nota, þ.e. sóknardagakerfi. Þar af leiðandi er það svo að þegar við gerum þar út skip undir fánum annarra ríkja þá veiðum við þar úr stofni sem lýtur sameiginlegri skiptingu. Út frá afköstum á sóknardagakerfinu er hægt að færa fyrir því rök að við höfum gengið á hagsmuni Íslendinga. Kæmi aftur til uppskipta á Flæmingjagrunni yrði örugglega litið til þess í fyrsta lagi að við höfum ekki alltaf klárað kvóta okkar þar og í öðru lagi að önnur ríki, sem m.a. hafa verið með íslensk skip undir fána sínum, hafa aukið veiði sína í sóknardagakerfinu, m.a. fyrir okkar atbeina.

Ég fæ ekki séð, herra forseti, að hægt sé að nota það sem rök þegar vitnað er til Flæmingjagrunns í grg. með frv., að það sé eitt af þeim tækifærum sem falli undir þetta frv. Ég tel að svo sé ekki, eins og ég hef rakið hér. Ég tel að það muni vinna gegn hagsmunum íslenska ríkisins við skiptingu aflaheimilda og gæti að öðru leyti gengið gegn hagsmunum Íslendinga, eins og segir hér í f-liðnum. Veiðireynslan sem við sköpuðum undir fána annars ríkis væri tekin úr potti sem við værum hins vegar að reyna að halda okkar hlutdeild í. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að svona er þetta. Það má auðvitað spyrja um fleira í þessu sambandi, m.a. rækjuveiðar í Barentshafi og annað slíkt.

Eftir sem áður má örugglega einhvers staðar finna veiðiheimildir sem mönnum finnst auðveldara að sækja með því að skrá skip sín í þurrleigu. Það er heldur ekkert launungarmál að um leið og menn fara með skipin undir fána annars ríkis koma iðulega fram kröfur um mönnun skipanna með þarlendum áhöfnum. Það skyldi þó ekki vera að þar í sæju útgerðarmenn helsta ávinninginn, að ná niður launakostnaði á skipum sínum með lægra launuðum áhöfnum? Það er jú alþekkt að launakostnaður, t.d. á skipum sem skráð eru í Eystrasaltsríkjunum eða í Póllandi, er þó nokkuð lægri en verið hefur á íslenskum og norskum skipum og skipum sem gerð eru út frá Færeyjum. Ég hygg að launakostnaður norskra, færeyskra og íslenskra skipa sé nokkuð sambærilegur þegar allt er skoðað, örlítið misjafnir kjarasamningar en ekki þannig að það skipti verulegu máli að mínu viti.

Hins vegar er hægt að taka undir það sem fram kemur í athugasemdum með frv.:

,,Hinn meginkosturinn er að íslenskar útgerðir gætu nýtt þurrleiguskráningu til að bæta réttarstöðu sína við sölu á skipum til erlendra aðila með kaupleigusamningi.``

Undir þetta sjónarmið er sjálfsagt að taka. Það kann að vera auðveldara hjá mönnum að selja skip sín í kaupleigu þegar hægt er að beita þurrleiguákvæðum. Það virðist hinn meginkosturinn í þessu frv. eins og segir hér í athugasemdum. Ég held að það sé samt varla svo mikið atriði og skipti sköpum um að afar nauðsynlegt sé að þetta frv. fari hér í gegn. Ég er ekki á þeirri skoðun.

Það er auðvitað hægt að tala hér um ýmis fleiri atriði í þessu máli, m.a. ákvæði í 4. mgr. 1. gr., en þar segir:

,,Þegar heimild skips til þurrleiguskráningar skv. 1. mgr. fellur niður skal Siglingastofnun Íslands fara fram á það við erlendu skipaskrána að skipið verði tafarlaust afmáð af henni.``

Þegar heimildin fellur niður skal skipið tafarlaust afmáð af erlendu skránni. Um leið og það gerist, herra forseti, mundi skipið umsvifalaust teljast íslenskt skip. Það væri farið af erlendu skipaskránni og væri þar af leiðandi íslenskt skip.

Ég benti á það þegar þetta var rætt hér síðast að þetta ákvæði, svona orðað, væri varla hægt að hafa inni. Ef menn ætla með þetta í gegnum þingið, eins og maður hlýtur að telja að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að gera, að gera þetta að lögum, tel ég að hæglega geti komið upp sú staða að af einhverjum orsökum þurfi að taka skip af þeirri þurrleigu sem það hefur verið sett á. Um leið og það yrði gert, tilkynnt að það hafi verið tekið af skipaskrá í þurrleiguríkinu, yrði það aftur orðið íslenskt skip og komið undir íslenska stjórn. Þar held ég að geti komið upp staða sem sennilega stangast á við íslensk lög. Allt í einu verður áhöfnin --- gerist þetta í hafi --- sem ráðin var á skipið erlendis og er kannski að stærstum hluta útlendingar, þar með talinn jafnvel skipstjórinn, orðin íslensk áhöfn á íslensku fiskiskipi. Ég er ekki viss um að þessi framkvæmd, herra forseti, standist alveg. Ég vil eindregið að menn skoði þetta. Það er óþarfi að hafa eitthvað í lagatextanum sem ekki er hægt að framkvæma án þess að brjóti strax í bága við önnur lög, íslensk lög.

Í 2. mgr. 1. gr. í þessu frv., herra forseti, segir m.a.:

,,c. verndunarsjónarmið mæla ekki gegn þeim veiðum sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur``.

Það er nú svo þegar við tölum um verndunarsjónarmið að hægt er að hafa á því ýmsar skoðanir. Mig langar til að vita hverjir meta þetta svo sem mælt er fyrir í frv. Væntanlega eiga íslensk stjórnvöld að meta það en hver á að leggja þeim til upplýsingarnar um það? Eru það alþjóðastofnanir um tillögur um veiðar á t.d. NAFO-svæðinu eða NEAFC-svæðinu? Eru það þær sem eiga að leggja til þá þekkingu sem íslensk stjórnvöld eiga að leggja mat á þegar tekið er tillit til þessara verndunarsjónarmiða varðandi þær tegundir sem skipin munu veiða? Þá gildir það væntanlega bæði innan og utan lögsögu. Við vitum að það er ágreiningur t.d. við Kanadamenn um veiðar utan lögsögu þeirra þótt aðrir telji sig þar í fullum rétti. Þá gæti komið upp sú staða, ef skip færi til veiða á Flæmingjagrunni og breytti síðan yfir í veiðar á þorski eða grálúðu svo dæmi sé tekið, að þessar forsendur um verndunarsjónarmið stæðust ekki. Til hvaða ráða grípa menn þá? Óska þá stjórnvöld allt í einu eftir því að skipið verði umsvifalaust tekið af þurrleigu erlendis og falli þar með strax undir íslenska lögsögu?

Mig langar að fá svör ráðherra við þessum spurningum, um hvernig menn hyggjast framkvæma þetta og hvaða verndunarsjónarmiða mönnum ber skilyrðislaust að taka afstöðu til, þ.e. íslenskum stjórnvöldum. Eru það þau sjónarmið, sem ég vék að varðandi botnlægar fisktegundir utan 200 sjómílna við Kanada eða Nýfundnaland, eða eru það einhver önnur sjónarmið?

Í 2. mgr. 1. gr. þessa frv. segir, herra forseti:

,,Áður en Siglingastofnun Íslands veitir heimild til þurrleiguskráningar skips skv. 1. mgr. skal liggja fyrir staðfesting sjávarútvegsráðuneytisins á því að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:``

Svo segir í e-lið:

,,e. sýnt þykir að ríkið sem skipið mun verða skráð þurrleiguskráningu í muni virða skyldur sínar sem fánaríki``.

Mig langar að fá aðeins skilgreiningu á því hvernig menn ætla að leggja mat á þetta. Þessi texti er þannig skrifaður að hann er matskenndur. Hvaða gögn munu liggja til grundvallar því að menn geti metið að skip sem hafa verið skráð þurrleigu, að það fánaríki muni virða skyldur sínar sem fánaríki? Hvernig verður það kannað, herra forseti? Hvernig fara menn að því þannig að lögin séu vel framkvæmanleg af okkar hálfu?

Ég ætla ekki að hafa mikið lengra mál um þetta, herra forseti. Mér finnst ýmislegt í frv. þurfa nánari umfjöllunar. Ég treysti því að málið fái góða og vandaða umfjöllun í samgn. en ef hæstv. ráðherra hefur nánari skýringar á textanum sem ég hef m.a. spurt út þá þætti mér vænt um að fá einhver svör við því. Að sjálfsögðu munu hagsmunasamtök, m.a. sjómanna, sem hafa lýst sig andvíg þessu frv., koma með athugasemdir varðandi málið, fá tækifæri til að fjalla um þetta og koma fyrir hv. samgn.

Ég er ekki sammála því sem segir í athugasemdum með frv., herra forseti, að tilgangur þess sé að auka möguleika íslenskra útgerða til að nýta skip sín til verkefna erlendis. Ég held að að því sé látið liggja í frv. að við höfum miklu meiri möguleika í sambandi við þurrleiguna en við höfum haft á undanförnum árum. Ég er ekki alveg sannfærður um að við séum að gera það gagn með þessu frv. sem menn ætla. Ég mun hins vegar að sjálfsögðu hlusta á rök ráðherrans, fylgjast með þessu máli og taka afstöðu til þess nánar í framtíðinni og athuga hvort önnur rök liggja til grundvallar. Ég hef hins vegar efasemdir um að málið sé okkur til framdráttar.