Áfengislög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 17:27:12 (570)

2002-10-15 17:27:12# 128. lþ. 10.11 fundur 23. mál: #A áfengislög# (framleiðsla innlendra léttvína) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[17:27]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér aðeins örstutt til þess að lýsa stuðningi mínum við þetta frv. sem lætur lítið yfir sér en gæti samt reynst vega þungt og haft mikil áhrif í samfélaginu. Ég tel að öll þau áhrif sem frv. af þessu tagi mundi hafa væru jákvæð fyrir menningu þjóðarinnar, matarmenningu og matvælaframleiðslu, því eins og hv. flm. gat um gæti heimild af þessu tagi, sem sagt með því að liðkað yrði til í áfengislöggjöfinni eins og hv. þm. orðaði það, skapað kunnáttu, þekkingu sem mundi mögulega gera okkur kleift að bæta þarna við þrepi í matvælaframleiðslu okkar sem hefur verið að vaxa gífurlega að burðum síðasta áratuginn. Ég vil bara minna menn á það, herra forseti, að mjór er mikils vísir. Þó að frv. sé mjótt gæti það mögulega átt eftir að leiða af sér öfluga hluti fyrir innlenda matvælaframleiðslu. Það veitir ekki af, herra forseti, að íslensk stjórnvöld styðji við þá hugmyndaauðgi sem til staðar er í íslensku þjóðfélagi. Hér væri að hluta til líka um stuðning að ræða sem konur gætu nýtt sér kannski enn frekar en karlar. Við þekkjum öll dugnað íslenskra kvenna við að búa til sultur og saft og að tína sveppi og ber þó þetta sé ekkert bundið við konur. Við þekkjum líka að karlarnir hafa tekið þetta upp á sína arma og þeir eru margir klókir í að búa til sitt eigið rúgbrauð og sínar fjallagrasaflatkökur.

Herra forseti. Ég verð að segja að mér þykja það ákveðin forréttindi núna að geta stigið í pontu og talað um íslenskar jurtir án þess að standa í orðaskaki við framsóknarmenn sem hafa misskilið tilgang íslensku jurtanna hrapallega. Eins og ég segi, herra forseti, þá held ég að frv. gæti orðið til góðs fyrir vínmenningu þjóðarinnar. Það gæti orðið grunnur að einhvers konar skipulagðri framleiðslu sem gæti orðið íslenskri matarmenningu lyftistöng. Ég vona sannarlega að málið fái brautargengi hjá nefndum þingsins og þingmönnum sem um það eiga eftir að fjalla og fái að koma hingað til afgreiðslu en það hefur það ekki fengið í þau fyrri skipti sem hv. flutningsmaður hefur mælt fyrir því.