Aðgerðir til að efla löggæslu

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:45:12 (575)

2002-10-16 13:45:12# 128. lþ. 12.1 fundur 67. mál: #A aðgerðir til að efla löggæslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég tek undir þakkir til hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mjög svo alvarlega máli. Mér er mjög vel kunnugt um hversu afleit staða er í þessum málum víða um land eftir viðræður við fjölmarga sveitarstjórnarmenn og íbúa og einnig þá sem vinna að löggæslumálum í landinu.

Ég get nefnt til viðbótar við þá staði sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi Búðardal, Hólmavík og nokkra til viðbótar. Ég spyr hæstv. dómsmrh.: Hver er skýringin á því sleifarlagi sem viðhaft er? Meginatriðið á að vera góð þjónusta að sögn hæstv. dómsmrh. og það er ekki. Hún hefur versnað. Mjög er deilt um kostnað vegna bílabanka ríkislögreglustjóra. Einnig er deilt um þann kostnað sem verður til, þ.e. það sem embættin þurfa að borga þegar reikningarnir koma vegna viðbótar löggæslukostnaðar frá ríkislögreglustjóra.