Aðgerðir til að efla löggæslu

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:48:20 (578)

2002-10-16 13:48:20# 128. lþ. 12.1 fundur 67. mál: #A aðgerðir til að efla löggæslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns þá veit ég ekki annað en að þessi fíkniefnahundur og framlag til hans hafi verið klippt út í þessum fjárlögum þannig að það góða verkefni er ekki lengur fyrir hendi.

Virðulegi forseti. Þegar ég bar fram þessa fyrirspurn hafði ég ekki hugsað mér að taka Kópavog sérstaklega fyrir. En eftir að hafa skoðað það mál, hlýt ég að beina sjónum manna að því.

Landssamband lögreglumanna ályktaði um ástandið þar síðasta vor. Það er þannig að fjórir eru á dagvakt og fjórir á næturvakt og það var þannig þegar bærinn var 14--15 þúsund manns, en þá var líka talin þörf á sérstökum dagmanni en sú staða er ekki lengur til. Smáralind er eins og lítið þorp sem hefur bæst við inn í þennan 25 þúsund manna bæ. Þjófnuðum hefur fjölgað um 95% á einu ári. Og þegar lögreglan birtist eftir að fólk hringir á hjálp, þá mætir henni skens vegna þess að hún kemur svo seint, hún verður að forgangsraða. Það er bara einn bíll á ferð.

Virðulegi forseti. Þegar talað er um að ég sem þingmaður og fyrirspyrjandi eigi að fagna því að umferðardeildin flytjist í Kópavog, þá leyfi ég mér að halda því fram að það skipti engu máli. Umferðardeildin á eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um að halda áfram með sín verkefni. Hún hefur verið með myndavélar í Kópavogi áður og á öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Hún verður áfram með Vegagerðinni með þungaaksturinn. Hún á ekki að verða sýnileg. Hún fer ekki í þau verkefni sem bíða. Ástandið er mjög erfitt. Það er ekki að við viljum vera neikvæð. Það eru þeir sem ráða sem hafa sett málin þannig upp að þau eru óviðunandi.

Virðulegi forseti. Mér finnst gott að vinna fari fram í ráðuneytinu og mér finnst gott að það sé skoðað hvernig hlutirnir eru í nágrannalöndunum og ég fagna því ef hugmyndir liggja fyrir fyrir næstu kosningar.