Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:03:15 (585)

2002-10-16 14:03:15# 128. lþ. 12.2 fundur 138. mál: #A reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Ég verð að segja að ég dreg í efa að það sé í raun hægt að koma upp reiknilíkani fyrir sýslumannsembættin öll, eins misjöfn og þau eru vítt og breitt um landið. Við höfum reiknilíkan, eins og hér var nefnt, fyrir framhaldsskólana sem ekki hefur reynst allt of vel. Mig undrar að ekki skuli hafa verið farin sú leið sem reyndar sýslumenn sumir hverjir hafa farið fram á sjálfir, þ.e. að Ríkisendurskoðun geri úttekt á starfsemi hvers embættis og skoði þróun þeirra fjárveitinga sem hafa verið í samanburði við sambærileg embætti. Þetta var t.d. gert austur á Höfn og borið saman við embætti af svipaðri stærðargráðu. Auðvitað þarf að fylgjast mjög vel með því hvernig þróunin hefur verið og hver fjárþörfin er vegna þess að verkefnin eru þekkt.

Það að þessi stóri hópur, með þessum embættismönnum, eftir tæplega fjögurra ára starf, þriggja eða fjögurra ára starf, sé ekki kominn lengra en að skila áfangaskýrslu um næstu áramót um hver fjárveitingin þarf að vera til sýslumannsembættana, er náttúrlega alveg með ólíkindum.

Auðvitað er eðlilegt að þeir séu ekki farnir að fá nein laun fyrir störf sín enn. En þau hljóta að verða töluverð þegar þessari margra ára vinnu loksins lýkur, þegar búið verður að skoða þörf sýslumannsembættanna í landinu.

Ég ætla ekki við þessa umræðu að ræða sérstaklega um tilraunahundinn í Vestmannaeyjum þar sem einn hundur er við fíkniefnaleit og er það sérstakt tilraunaverkefni Alþingis. Þetta hlýtur að vera eitthvað sambærilegt og er að gerast annars staðar með fíkniefnaleitarhunda, að alls staðar eru þeir að störfum á sömu forsendum, held ég, en ég er auðvitað ekki sérfræðingur í þessum efnum.

Það er mikil nauðsyn fyrir okkur að þessu verkefni ljúki og skýrslunni verði skilað.