Val kvenna við fæðingar

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:10:46 (588)

2002-10-16 14:10:46# 128. lþ. 12.3 fundur 69. mál: #A val kvenna við fæðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Fyrir mig hafa verið lagðar tvær spurningar:

,,1. Hvaða leiðir sér ráðherra færar til að auka val kvenna á fæðingaraðstæðum?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir fleiri möguleikum, t.d. með áherslu á heimafæðingar og fæðingar á minni stofnunum utan hátæknisjúkrahúsa?``

Hér er spurt um stefnu hvað varðar fæðingar. Fæðingar á Íslandi hafa undanfarið ár verið á fimmta þúsundið. 1999 voru þær 4.145 og árið 2000 voru fæðingar á Íslandi 4.369. Konur fæddu á 15 stöðum. Auk þess fæddi 31 kona heima á árinu 2000 en 19 fæddu heima í fyrra. Konum sem fæða bjóðast í raun allir þessir 15 staðir sem um er að velja á Íslandi. Auk þess er á stærstu stöðunum val um fæðingaraðferðir, fæðingarstellingar, viðveru aðstandenda og stuðningsaðila, verkjalyfjanotkun, heimaþjónustu eftir eðlilega fæðingu o.fl.

Við val þessara þátta er reynt að taka í fyllsta mæli mið af óskum kvennanna ef faglegar forsendur fylgja. Konur á höfuðborgarsvæðinu sem ekki vilja fara á Landspítalann -- háskólasjúkrahús hafa um tvo kosti að velja. Í fyrsta lagi heimafæðingu, en svipaður fjöldi velur þessa þjónustu frá ári til árs. Huga þarf þá sérstaklega að útbúnaði, menntun og þjálfun ljósmæðra. Í öðru lagi að fara á aðra fæðingarstaði eins og Akranes og Suðurnes. Konur úti á landi geta valið næsta fæðingarstað eða Landspítalann -- háskólasjúkrahús.

Þess ber að geta að í dag er á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og nágrenni boðið upp á góða heimaþjónustu eftir fæðingu. Rúmlega 50% kvenna velja að fara heim innan sólarhrings frá fæðingu og njóta þessarar þjónustu. Brýnt er að auka umfang heimaþjónustu og skerpa á skilyrðum sem ljósmæður þurfa að uppfylla til að geta sinnt henni. Annars staðar er heimaþjónusta af skornum skammti og þarf að efla hana til að konur sem ekki fæða í heimabyggð geti farið sem fyrst heim.

Um 70% af heildarfjölda fæðinga er á kvennadeild Landspítala, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Eru það rétt tæplega 3.000 fæðingar. Einnig fara flestar áhættufæðingar fram þar. Að sjálfsögðu er stærstur hluti fæðinga á kvennadeild Landspítalans þó eðlilegar fæðingar.

Ef aftur er litið til fæðingarstaða þá eru fæðingar 100 eða fleiri á fimm stöðum á Íslandi, á tveimur stöðum að auki eru um 50 fæðingar á ári en á öðrum stöðum mun færri. Í nágrannalöndunum er notast við ákveðið viðmið um fjölda fæðinga sem teljast lágmark svo að starfsfólk geti haldið eðlilegri þjálfun. Í Noregi er miðað við 100 fæðingar á ári en í Svíþjóð er miðað við 400 á ári. Heilbriðgisyfirvöld hafa ekki haft forgöngu um að fæðingaraðstaða verði lögð niður þar sem fjöldi þeirra er undir ofangreindum mörkum en reynt að styðja við þá eftir fremsta megni. Þróunin hefur hins vegar verið sú að stöðum þar sem mjög fáar fæðingar eiga sér stað hefur fækkað undanfarin ár.

Hvað varðar fæðingar á minni stöðum úti á landi þá er brýnt að gera úttekt á því á hvaða stöðum sé mikilvægt að fæðingaraðstaða sé fyrir hendi. Það má hugsa sér að aðstaðan sé mismikil, t.d. varðandi skurðstofuaðstöðu. Í því sambandi má skoða tíðni fæðinga um landið í fæðingaskrá ásamt möguleika á mönnun á hverjum stað. Ljósmæðraþjónusta úti á landi þarf að vera tengd grunnþjónustu, þ.e. heilsugæslu. Ljósmæður eru nú með framhaldsmenntun eftir hjúkrunarnám sem nýtist vel við störf á heilbrigðisstofnunum fyrir utan hefðbundin ljósmæðrastörf.

Herra forseti. Skoðun mín er sú að valmöguleikar séu margir um fæðingaraðstæður kvenna. Þó að víða sé nauðsynlegt að svokölluð hátækni sé til staðar þá er meiri hluti fæðinga venjuleg fæðingarhjálp þar sem reynt er að gera umhverfið allt hið alúðlegasta þó að eðlilegri tækja- og tækniþróun sé fylgt. Á þessum forsendum tel ég ekki þörf á að leggja sérstaka áherslu á fjölgun heimafæðinga eða á fæðingar á minni stofnunum.