Val kvenna við fæðingar

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:17:44 (591)

2002-10-16 14:17:44# 128. lþ. 12.3 fundur 69. mál: #A val kvenna við fæðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjendum fyrir þessa fyrirspurn og sömuleiðis aðrar fyrirspurnir þessu tengdar sem komu hér á síðasta þingi. Þetta eru allt afar gagnlegar upplýsingar og eftir að hafa lesið í gegnum þau gögn finnst mér standa upp úr krafa kvenna á Íslandi um að eiga val varðandi barnsfæðingar. Það skiptir verulegu máli, jafnvel hér í Reykjavíkurborg, að konur eigi val um annaðhvort hátæknisjúkrahús eða heimili sem væri þá í líkingu við Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar, sem á sinni tíð sinnti þessari þjónustu með miklum glæsibrag og var sannarlega valkostur við hátæknisjúkrahúsið.

Ég tek undir þá ósk sem fram kom hjá hv. þm. Sigríði Ingvarsdóttir, sem er auðvitað ein af þessum sterku kröfum kvenna, að þær eigi möguleika á að fæða sem næst heimabyggð sinni og þá við aðstæður sem væru sambærilegar við Fæðingarheimilið í Reykjavík. Þar var veitt afskaplega örugg þjónusta, mjög svo heimilisleg og í alla staði til fyrirmyndar.