Rekstrarform í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:31:42 (598)

2002-10-16 14:31:42# 128. lþ. 12.4 fundur 76. mál: #A rekstrarform í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi LMR
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Lára Margrét Ragnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég tel að þessi sveigjanleiki sem nú er að komast á í heilbrigðisþjónustunni --- hann hefur verið til staðar að sumu leyti en er nú ræddur í auknum mæli og er reynt að fara út í núna --- sé mjög af hinu góða og að við getum þá frekar fengið samanburð á því hvað er hagstæðast fyrir þjóðfélagið. Ég tel að með þessum sveigjanleika sé unnt að auka þjónustuna við sjúklingana í heild, unnt sé að gera meira fyrir fleiri. Með samningum einkaaðila við hið opinbera tel ég að ekki sé um mismunun að ræða heldur greiðari aðgang að þjónustunni fyrir alla, aukna skilvirkni, aukin gæði og betri ráðstöfun fjármuna.

Ég hvet ráðherra til að halda áfram á þessari braut og kanna þá möguleika og þá kosti sem fyrir hendi eru og þá sem bjóðast á hverjum tíma.