Öryggisgæsla á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:47:05 (605)

2002-10-16 14:47:05# 128. lþ. 12.6 fundur 128. mál: #A öryggisgæsla á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og við heyrðum í fréttum ekki fyrir löngu síðan er það að verða vaxandi vandamál á sjúkrahúsum landsins að fólk í harðri fíkniefnaneyslu er lagt inn á almennar deildir vegna annarra sjúkdóma. Ekki er langt síðan að kalla þurfti til lögreglu vegna þess að fíkniefnaneytandi sem var á almennri deild á sjúkrahúsi hafði gert atlögu að lyfjaskáp sjúkrahússins.

Ég hafði aðstöðu til þess að fylgjast með því um nokkurn tíma að það er orðið vaxandi og viðvarandi vandamál á sjúkrahúsunum að þangað er komið með fíkniefnaneytendur, sem eru í mjög harðri neyslu, vegna annarra líkamlegra veikinda, t.d. vegna þess að þeir nærast ekki reglulega. Þeir sprauta sig með sýktum eða skítugum nálum sem valda sýkingu, taka of stóra skammta eða eiturlyfin sjálf eru mishrein efni. Þetta fólk er lagt inn á sjúkrahús mjög alvarlega veikt og alls ekki má skilja það þannig af mínum orðum að það eigi ekki að fá þá þjónustu sem því ber. En með því að leggja það inn á almennar deildir er þess í raun krafist að sjúkrahúsin sinni sérhæfðri þjónustu sem þau eru ekki í stakk búin til að veita. Þessum einstaklingum þurfa að fylgja öryggisverðir frá morgni til kvölds og nánast allan sólarhringinn, fyrst og fremst vegna þeirrar fíknar sem sjúklingurinn er haldinn og einnig vegna þess að ef viðkomandi einstaklingur getur ekki náð sér í lyf innan veggja sjúkrahúsa --- komið hefur fram að þau eru geymd þar í meira mæli en gerist t.d. á sjúkrahúsum erlendis --- þá þarf að fylgjast með því að eiturlyfin berist ekki utan frá. Þetta krefst mikillar vinnu og mikið álag á starfsfólk sjúkrahúsanna fylgir þessu breytta umhverfi sem er fylgifiskur mikillar og aukinnar fíkniefnaneyslu hér. Þetta er einnig mjög erfitt fyrir sjúklinga sem liggja af öðrum orsökum á sömu deildum og óttast vissulega það fólk sem er undir strangri öryggisgæslu allan sólarhringinn. Ég vil því beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að öryggisgæsla á sjúkrahúsum verði hert? Ef svo er, á hvern hátt og hver verður kostnaður við það?``