Öryggisgæsla á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:54:54 (607)

2002-10-16 14:54:54# 128. lþ. 12.6 fundur 128. mál: #A öryggisgæsla á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., LMR
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem eingöngu hér upp til að þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf. Það er nauðsynlegt að auka öryggisgæslu á sjúkrahúsum og ég veit að sérstaklega brennur þar á í þeim málum sem hv. fyrirspyrjandi minnti á, þ.e. málum þeirra erfiðu sjúklinga sem liggja á geðdeildum eða öðrum deildum vegna fíkniefnavanda.

Ég vil einnig nefna aukið öryggi vegna aðgengis inn á sjúkradeildir sem hæstv. ráðherra minntist á. Það hefur viljað brenna við að truflun hafi orðið á einkalífi sjúklinga vegna gesta sem ekki var ætlað að fara í heimsókn til sjúklinga. Það verður að gæta að umferð og öryggi bæði sjúklinga sem inni liggja og gesta sem þá heimsækja sem oft og tíðum hafa jafnvel orðið fyrir eignamissi vegna umrenninga sem hafa átt leið um deildirnar og gerst fingralangir.