Rannsóknir á nýjum orkugjöfum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:15:35 (615)

2002-10-16 15:15:35# 128. lþ. 12.8 fundur 104. mál: #A rannsóknir á nýjum orkugjöfum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:15]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurning hv. þm. hljóðar svo:

,,Hve miklu fé hefur verið varið síðustu þrjú ár af hálfu ráðherra til rannsókna á nýjum orkugjöfum fyrir ökutæki, svo sem raforku, vetni, metani, lífdísli, etanóli og metanóli, sundurliðað eftir orkugjöfum?``

Svarið er eftirfarandi: Á síðustu þremur árum, þ.e. á árunum 1999--2001, hefur kostnaður iðnrn. vegna rannsókna á nýjum orkugjöfum verið 4,9 millj. kr. Sá kostnaður felst að mestu í vinnu nefnda og sérfræðinga, funda- og ferðakostnaðar, auk útgáfukostnaðar.

Kostnaður Orkustofnunar á þessu tímabili vegna nýrra orkugjafa hefur verið um 8 millj. kr. Kostnaður Iðntæknistofnunar vegna þróunar og rannsókna á nýjum orkugjöfum nemur á þessu árabili um 12 millj. kr., þar af er um helmingur þeirrar upphæðar vegna ECTOS-verkefnisins, um þróun vetnis sem eldsneytis á strætisvagna og bifreiðar hér á landi. Á tímabilinu styrkti orkusjóður könnun á framleiðslu staðgengisolíu, svokallaðs lífdísils, um rúmlega 7 millj. kr.

Þá hefur iðnrh. fyrir hönd ríkissjóðs keypt hlutabréf í fyrirtækinu VistOrku að nafnvirði 8 millj. kr. á genginu 10 og var hluti þessarar upphæðar 54 millj. kr. greiddur á árinu 2001, en 26 millj. kr. verða greiddar á næsta ári.

VistOrka hf. er eins og kunnugt er í eigu íslenskra aðila, orkufyrirtækja, Nýsköpunarsjóðs, háskólans og fleiri aðila og á fyrirtækið 51% hlutafjár í Íslenskri NýOrku ehf., en þrjú erlend fyrirtæki eiga 49%.

Spurning númer tvö: ,,Hvaða stefnu er fylgt við úthlutun fjár til slíkra þróunarverkefna?``

Svar: Eins og fram kemur hér að framan hefur ekki verið um að ræða beina úthlutun fjár til verkefna á þessu sviði nema hlutafjárkaup ríkisins í VistOrku hf. Þau kaup voru gerð samkvæmt sérstakri samþykkt ríkisstjórnarinnar og tengist hún ákvörðun Evrópusambandsins um styrkveitingu til vetnisverkefnis Íslenskrar NýOrku ehf. sem unnið er að hér á landi af eigendum þess fyrirtækis.

Þriðja spurning: ,,Hvaða verkefni eru í undirbúningi og á vinnslustigi með öðrum aðilum eins og NýOrku ehf., VistOrku o.fl.?``

Svar: Af hálfu stjórnvalda hefur engin ákvörðun verið tekin um stuðning við önnur verkefni en ECTOS-verkefnið sem nú er unnið að eins og flestum er kunnugt um. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri NýOrku ehf. eru átta verkefni á vinnslustigi. Þau eru:

ECTOS-verkefnið sem felst í tilraunaakstri þriggja vetnisvagna og rannsóknum vetnisinnviða.

Hagkvæmniathugun á útflutningi á vetni.

Kortlagning vetnisinnviða í framtíðarsamfélagi.

Gerð fræðsluefnis um vetnisorkukeðjuna.

Undirbúningur fyrir vetnis-sumarskóla við Háskóla Íslands fyrir alþjóðlega doktors- og mastersnema.

Þátttaka í nefnd um framtíðarsýn vetnissamfélagsins á vegum Evrópusambandsins.

Ráðgjafaþjónusta vegna samfélags- og efnahagsrannsókna í Evrópu.

Auk þess sem unnið hefur verið mikil markaðsvinna á vegum Íslenskrar NýOrku.

Á vegum fyrirtækisins eru hins vegar í undirbúningi vetnisskipaverkefni, rannsóknir á aðstöðu vegna vetnisgeymslu í samstarfi við Háskóla Íslands, rannsóknir á geymslu vetnis í málmhýdríðum, nýting jarðvarma til vetnisframleiðslu, skoðun á samfélagssparnaði vegna utanaðkomandi þátta, sýningarverkefni á litlum vetnisbílaflota, auk ýmissa annarra verkefna. Í flestum þessara verkefna á fyrirtækið náið samstarf við helstu stofnanir landsins, t.d. Háskóla Íslands, Iðntæknistofnun og Orkustofnun.

Spurning fjögur: ,,Hve mikla fjármuni hefur NýOrka ehf. haft til umráða frá ráðuneytinu og til hvaða verkefna?``

Svar: Eina fjármagnið sem Íslensk NýOrka ehf. hefur fengið frá iðnrn. er hlutafjárgreiðsla til móðurfyrirtækis þess, VistOrku ehf., 54 millj. kr., sem greidd var sl. vor. Beinar greiðslur til fyrirtækisins hafa verið vegna kostnaðar við fundi og erindi erlendis í tengslum við kynningu á ECTOS-verkefninu hér á landi.

Hæstv. forseti. Þar sem ég hef ekki alveg lokið þeim tíma sem ég hef hér til umráða, þá vil ég geta þess að síðasta mánudag sat ég fund úti í Brussel sem sendiráð okkar stóð fyrir og kallaðist orkueftirmiðdagur, þar sem fyrst og fremst var rætt um vetni. Mjög athyglisvert var að fylgjast með því og kom mér það svo sem ekki á óvart af því að ég vissi það fyrir að gríðarlegur áhugi er á þessum málum og áhugi á því sem við Íslendingar erum að gera og við erum þarna í fararbroddi og erum náttúrlega ákaflega stolt af því.