Rannsóknir á nýjum orkugjöfum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:27:37 (621)

2002-10-16 15:27:37# 128. lþ. 12.8 fundur 104. mál: #A rannsóknir á nýjum orkugjöfum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er hægt að taka undir það með hv. þm. að alltaf er hægt að gera meira og eflaust alltaf hægt að gera betur líka. Hins vegar er margt gott gert að mínu mati. Iðnrn. hefur verið í samstarfi við Sorpu t.d., og ég minni á verkefni sem tengist Borgarplasti sem var gert opinbert í sumar, sem gengur út á metangas. Það hefði ekki orðið að mínu mati nema komið hefði verið að því af hálfu stjórnvalda, af hálfu iðnrn.

Þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir segir að engin stefna sé og hefur hér uppi nokkuð stór orð, þá mótmæli ég því að það sé engin stefna vegna þess að íslensk ríkisstjórn gaf út þá stefnu fyrir allmörgum árum að stefna að því að Ísland verði fyrsta vetnissamfélagið í heiminum. Og það er nú ekki lítið að taka slíkt upp í sig. Eftir þessu hefur verið tekið og það er gott. (KolH: Þetta er yfirlýsing, ekki stefna.)

Í sambandi við Evrópusambandið þá get ég alveg tekið undir það með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að þar kom virkilega hjálparhönd og það skiptir miklu máli í sambandi við strætisvagnatilraunaverkefnið að myndarlegur styrkur fékkst frá Evrópusambandinu. Það er hins vegar ekki bara Evrópusambandið sem þar skiptir máli vegna þess að þar skipta máli bæði íslensk fyrirtæki og erlend fyrirtæki, stórfyrirtæki eins og DaimlerChrysler og Norsk Hydro og fleira mætti nefna. Þannig að í öllum aðalatriðum erum við að vanda okkur í þessu og leggja okkur fram.

Á þeim fundi sem ég vitnaði til í Brussel var fulltrúi frá Ballard-fyrirtækinu sem heitir André Martin og hann segir að Íslendingar séu leiðandi í því að þoka vetnisvæðingunni áfram. Og hann segir líka, sem er mikilvægt og allir vita, að koma þarf niður kostnaðinum við efnarafala. Þess vegna erum við kannski ekki alveg við þröskuldinn að koma þessari vetnisvæðingu á, heldur tekur það einhvern tíma. En við erum að vinna af heiðarleika að þessu máli og mér þykir leitt ef hv. þm. kunna ekki að meta það.