Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:30:50 (622)

2002-10-16 15:30:50# 128. lþ. 12.9 fundur 174. mál: #A Orkubú Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SRagn
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ragnarsdóttir):

Herra forseti. Um þessar mundir brenna málefni Orkubús Vestfjarða mjög á vörum allra Vestfirðinga og hafa hugmundir hæstv. iðnrh. um að flytja höfuðstöðvar starfseminnar í annan landsfjórðung skapað mikla óvissu og reiði.

Orkubú Vestfjarða hefur allt frá stofnun þess árið 1978 verið einn af helstu máttarstólpum vestfirsks atvinnulífs. Fyrirtækið teygir anga sína út um alla firði og sveitir, og í kringum það og vegna þess hafa skapast fjölmörg önnur störf og tækifæri.

Atvinnulíf á Vestfjörðum hefur löngum verið fábreytt og einkum tengt sjávarútvegi. Orkubúið hefur hins vegar laðað til sín fólk með sérmenntun og sérþekkingu, iðnaðarmenn, tæknifræðinga, verkfræðinga og stjórnendur. Fjölbreytni og umfang fyrirtækisins gerir það þannig að einstaklega byggðavænni stofnun.

Á síðustu árum hafa verið talsverðar umræður um framtíð fyrirtækisins. Í fyrra var því breytt í hlutafélag en vegna bágrar fjárhagsstöðu sveitarfélaganna á Vestfjörðum neyddust þau til að selja ríkinu sinn hlut. Þar með var orkubúið orðið eitt stærsta og öflugasta ríkisfyrirtækið í fjórðungnum.

Því miður er það svo að þrátt fyrir mörg góð áform hefur gengið misvel að flytja ríkisfyrirtæki og opinber störf út á land. Hefur það þó jafnan verið eitt helsta baráttumál þeirra sem stuðla vilja að jafnvægi í byggð landsins. Það skýtur því skökku við þegar hæstv. iðnrh., sjálfur ráðherra byggðamála, viðrar í fullri alvöru þær hugmyndir að flytja höfuðstöðvar þessa öfluga fyrirtækis í burtu úr þeim landsfjórðungi sem nú á hvað mest undir högg að sækja. Ljóst er að ef af sameiningu Rariks, orkubúsins og Norðurorku verður með höfuðstöðvar á Akureyri, eins og hæstv. ráðherra hefur lagt til, mun störfum fækka verulega fyrir vestan og þá væntanlega fyrst best launuðu störfunum.

Nærtækara væri að hæstv. ráðherra lýsti yfir stuðningi sínum við þær hugmyndir sem fram hafa komið um það hvernig efla megi og útvíkka starfsemi fyrirtækisins á svæðinu og fjölga þeim fjölbreyttu atvinnutækifærum sem það veitir. Þar má nefna stækkun rekstrarsvæðis þess, auknar rannsóknir á virkjanakostum, stórátak í leit að heitu vatni og nýtingarmöguleikar þess skoðaðir.

Ég spyr því hæstv. iðnrh.:

Hverjar eru fyrirætlanir ráðherra varðandi eignarhald og framtíðarrekstur Orkubús Vestfjarða?

Virðulegi forseti. Það er engan bilbug að finna á okkur Vestfirðingum. Við höfum staðið af okkur mörg stóráföll á síðustu árum, bæði af völdum manna og náttúru, og erum kannski sterkari eftir en áður. Brottflutningur höfuðstöðva Orkubús Vestfjarða gæti þó orðið það áfall sem riði okkur að fullu. Er það vilji ríkisstjórnar Íslands?