Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:34:09 (623)

2002-10-16 15:34:09# 128. lþ. 12.9 fundur 174. mál: #A Orkubú Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Árið 1976 samþykkti Alþingi lög um Orkubú Vestfjarða. Frá stofnun orkubúsins á árinu 1977 og fram til ársins 2001 var það rekið sem sameignarfélag í eigu ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Eignarhluti ríkissjóðs var 40% en eignarhluti sveitarfélaganna nam samtals 60%. Með samkomulagi eigenda sameignarfélagsins, þ.e. ríkisstjórnar Íslands annars vegar og sveitarfélaganna á Vestfjörðum hins vegar, dags. 7. febrúar 2001 var ákveðið að slíta sameignarfélaginu og stofna hlutafélag um rekstur fyrirtækisins undir heitinu Orkubú Vestfjarða hf. Alþingi heimilaði stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða með lögum það sama ár. Í kjölfar þessa keypti ríkissjóður hlutafé allra sveitarfélaganna í orkubúinu og því er ríkið nú eitt eigandi fyrirtækisins sem rekið er í hlutafélagaformi. Ekki eru uppi áform um að breyta þessu rekstrarformi.

Í 7. gr. áðurgreinds samkomulags ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaga á Vestfjörðum frá 7. febrúar 2001 er tekið fram að Orkubú Vestfjarða hf. muni starfa sem sjálfstæð eining og ekki verða sameinað öðru orkufyrirtæki fyrr en eftir að nýtt skipulag raforkumála hefur tekið gildi hér á landi. Eftir að ríkið er orðið eini eigandi bæði Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða hf. er eðlilegt að hugað verði að hagkvæmni þess að sameina fyrirtækin. Það verður hins vegar ekki gert nema sameining verði talin hagkvæm að teknu tilliti til allra þeirra hagsmuna sem þar vegast á.

Í 8. gr. samkomulagsins frá 7. febrúar 2001 segir að komi til sameiningar Orkubús Vestfjarða hf. við annað eða önnur orkufyrirtæki eftir gildistöku nýrra raforkulaga muni ríkisvaldið eftir því sem í þess valdi stendur beita sér fyrir því að hluti starfsemi hins sameinaða fyrirtækis fari fram á Vestfjörðum. Orðrétt segir í 8. gr., með leyfi forseta:

,,Sameigendur eru sammála um að reynt verði eftir megni að efla starfsemi orkugeirans á Vestfjörðum og viðhalda þjónustu við dreifða byggð.``

Á Vestfjörðum eru ýmsir virkjanakostir sem verið er að meta í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Síðasta sumar fór ég ásamt starfsmönnum iðnrn., Orkustofnunar og Orkubús Vestfjarða hf. í ferð um Vestfirði og kynnti mér aðstæður til virkjana í fjórðungnum og þá alveg sérstaklega í Hvalá í Ófeigsfirði. Er það von mín að markaður fyrir orku frá slíkum virkjanakostum skapist á Vestfjörðum en við það mundi starfsemi orkugeirans þar eflast verulega. Bind ég vonir við að af þessu geti orðið.

Um nokkurt skeið hafa verið í gangi viðræður milli ríkisstjórnarinnar og Akureyrarbæjar um sameiningu Rariks og Norðurorku. Mat hefur verið lagt á hagkvæmni þess að sameina fyrirtækið eftir atvikum með sameiningu við Orkubú Vestfjarða, og niðurstaða verðmats á fyrirtækjunum liggur fyrir. Þessar viðræður eru á viðkvæmu stigi og ekkert hægt að segja um niðurstöðu þeirra að svo stöddu.

Eins og ég sagði fyrr er það heildarmat á öllum þeim hagsmunum sem ríkið þarf að taka tillit til sem munu ráða niðurstöðu um það hvort af sameiningu verður eða ekki.