Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:46:15 (630)

2002-10-16 15:46:15# 128. lþ. 12.9 fundur 174. mál: #A Orkubú Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SRagn
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:46]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ragnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hennar varðandi framtíð orkubúsins og hv. þingmönnum fyrir góða þátttöku í umræðunni.

Ég hefði vissulega kosið að fá afdráttarlausari og skýrari svör. Starfsmenn Orkubús Vestfjarða eru um 60 talsins og nauðsynlegt að eyða sem fyrst þeirri miklu óvissu sem þeir og fjölskyldur þeirra hafa búið við sem hlýtur einnig að hafa slæm áhrif á starfsemi fyrirtækisins.

Okkur sem búum fyrir vestan er fullkomlega ljóst hvílíkur hnekkir það yrði fyrir atvinnulíf okkar og einnig sjálfsmynd ef höfuðstöðvar orkubúsins yrðu fluttar í burtu, alveg burt séð frá því hvort einhver störf yrðu þar eftir.

Ég vil einnig taka undir ályktun Fjórðungsþings Vestfirðinga frá í haust þar sem skorað var á hæstv. iðnrh. að efla Orkubú Vestfjarða og víkka starfssvið þess svo það nái til alls hins nýja Norðvesturkjördæmis.

Virðulegi forseti. Öllum hlýtur að vera ljóst að grípa verður til róttækra aðgerða á öllum sviðum atvinnulífsins í Norðvesturkjördæminu til að skapa mótvægi við þær miklu framkvæmdir sem ríkið stefnir að annars staðar á landinu á næstu árum.

Í sérstakri byggðaáætlun fyrir Vestfirði sem unnin var á fyrri hluta þessa árs eru fjölmargar hugmyndir heimamanna um hvernig efla megi atvinnu- og mannlíf fyrir vestan. Á þeim vettvangi bíða iðnrn. vissulega verðugri verkefni en vangaveltur um flutning norður í land.