Viðskiptahættir á matvælamarkaði

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:59:59 (636)

2002-10-16 15:59:59# 128. lþ. 12.10 fundur 166. mál: #A viðskiptahættir á matvælamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi HBl
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í skýrslu Samkeppnisstofnunar kemur fram að álagning hjá verslunarkeðjunum sé orðin meiri en áður, allt upp í 50%. Á hinn bóginn segir að álagning birgja, þ.e. framleiðenda og heildsala, hafi minnkað. Það kemur líka fram að þetta bitni sérstaklega á íslenskum framleiðendum. Þetta kemur fram í skýrslu Samkeppnisstofnunar. Þar er nefnt þrennt um kostnað birgja. Í fyrsta lagi segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Þannig hefur það vaxið að birgjar sjái um uppröðun á vörum í hillur matvöruverslana.`` --- Nokkru síðar segir, með leyfi forseta: ,,Kostnaður við kæli- og frystiskápa hefur að einhverju leyti flust frá verslunum til birgja.`` --- Enn fremur stendur í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að mati Samkeppnisstofnunar má draga þá ályktun að birgjar finni sig knúna til samstarfs sem felur í sér kostnaðarhlutdeild í kynningarstarfi matvöruverslana þar sem það þjóni ekki hagsmunum birgjanna í samskiptum við sterka kaupendur að hafna slíku samstarfi.``

Mér er sagt að þetta fari fram með þeim hætti að þessar stóru keðjur birti auglýsingar og láti síðan birgjana greiða hlutfallslega fyrir auglýsingaverðið og ekki liggi fyrir annað en að stóru keðjurnar geti beinlínis hagnast af því að auglýsa í blöðum af því birgjarnir séu látnir greiða hærri fjárhæðir en nemur auglýsingakostnaði. Að minnsta kosti hafa birgjar engar upplýsingar um nema svo kunni að vera. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt ástand og það er undarlegt, ef rétt er, að Samkeppnisstofnun hafi enn ekki gefið út reglur um viðskipti birgja og verslunarkeðja sem eru ráðandi á markaði, eftir þá skýrslu sem út kom þar sem miklar dylgjur eru hafðar uppi um að verslunarhættir séu óheilbrigðir. Það eru ummæli Samkeppnisstofnunar en ekki mín sem gefa það í skyn.