Viðskiptahættir á matvælamarkaði

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 16:02:18 (637)

2002-10-16 16:02:18# 128. lþ. 12.10 fundur 166. mál: #A viðskiptahættir á matvælamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er rétt að í þeirri skýrslu sem Samkeppnisstofnun vann og birt var í apríl 2001, kemur fram að ekki er allt með felldu og það eru ýmis atriði sem Samkeppnisstofnun segir í skýrslunni að verði athuguð frekar. Síðan fer stofnunin í þá vinnu að rannsaka þá þætti sem voru ekki fullathugaðir þegar skýrslan er gefin út. Í þeirri vinnu kemur í ljós að ástandið hefur batnað mikið. Ég held að það sé nú góðs viti. Í framhaldi af því einnig, og reyndar hafði sú umræða komið upp áður, er ákveðið að fara út í þessar leiðbeiningar á markaðnum þar sem allir aðilar geti komið sér saman um leikreglur, vonandi, og þar með verði þetta umhverfi allt heilbrigðara og ásættanlegra.

Þær reglur sem við höfum talað um í þessari umræðu eru á næsta leyti. Ég er með grein eða frétt sem birtist í blöðum. Þar stendur og er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar:

,,En við erum einfaldlega að ramma inn í reglur viss atriði þannig að menn átti sig á því betur hversu langt má ganga með hliðsjón af ákvæðum samkeppnislaga.``

Auðvitað eru samkeppnislögin grundvallaratriði í þessum efnum, en með reglunum sem væntanlega verða tilbúnar innan skamms, þá verður þetta umhverfi allt saman það niðurnjörvað hvað reglur og lög varðar að við skulum gera okkur vonir um að þá verði ekki viðhöfð slík vinnubrögð sem koma fram í skýrslunni og ég vissulega tek undir með hv. þm. að eru ekki neinum til sóma.