Lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 16:14:08 (642)

2002-10-16 16:14:08# 128. lþ. 12.13 fundur 93. mál: #A lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[16:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil enn og aftur þakka þingmanninum fyrir að endurvekja þetta mál hér því hér urðu ákveðin mistök af minni hálfu í fyrra. En þau eru sem sagt leiðrétt á grundvelli og í kjölfar þessarar fyrirspurnar.

En út af því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði hér og einnig hv. fyrirspyrjandi um svarta atvinnustarfsemi þá er það náttúrlega þannig, eðli málsins samkvæmt, og liggur í hlutarins eðli að ekki er hægt að sannreyna eða meta til fulls hvort slík starfsemi hefur minnkað eða aukist vegna þessarar breytingar.

Ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, upp úr því sem segir um þetta atriði í skýrslunni:

,,Af ýmsum ástæðum er erfitt að leggja mat á hvort svört atvinnustarfsemi hafi aukist á þessu sviði og þá hversu mikið. Leggja má fram rök sem leiða líkur að því að fækkun á endurgreiðslubeiðnum frá 1996 ... bendi til þess að svört atvinnustarfsemi hafi aukist á þessu sviði. Bent hefur verið á að endurgreiðsluheimildin hafi haft nokkuð að segja í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi og að þau áhrif hafi eitthvað minnkað við lækkun endurgreiðsluhlutfallsins.

Aftur á móti bendir stöðug hækkun heildarendurgreiðslufjárhæða frá 1997 ekki til þess að svört atvinnustarfsemi hafi aukist frá 1997 vegna lækkaðs endurgreiðsluhlutfalls ...``

Hér er jafnframt vitnað í töflur og myndir sem fylgja skýrslunni.

Að öðru leyti liggur þetta vonandi frammi sem allra fyrst hér sem þingskjal, herra forseti.