Neysluvatn

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:25:19 (653)

2002-10-17 11:25:19# 128. lþ. 13.3 fundur 13. mál: #A neysluvatn# þál., Flm. KF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:25]

Flm. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Mig langar að þakka frábærar undirtektir við þessa þáltill. sem stendur hjarta mínu mjög nálægt. Þær myndir sem dregnar hafa verið upp af veröldinni þar sem dagur getur farið í að sækja vatn í vissum hluta veraldarinnar rifja upp fyrir mér sögu sem ég las einhvern tíma um mann sem ferðaðist í heitu landi þar sem lítið var um vatn. Þar lærðu menn að fara í sturtu úr einum bolla af vatni. Með því að sápa sig á ákveðinn hátt og halda bollanum á réttum stað tókst að láta vatnið renna nákvæmlega niður og skola sápuna af. Það er sem sagt hægt að fara í sturtu úr einum bolla af vatni. Reynum við Íslendingar að gera slíkt.

Að leggjast niður á lækjarbakka og teyga ferskt lindarvatn er unaðslegt og okkur finnst það sjálfsagt en það er svo sjaldgæft í heiminum. Það liggur við að það sé varla til. Þetta eru okkar forréttindi. Þess vegna finnst mér rétt að við lítum á vatnið sem auðlind, að við virðum hana og reynum að nýta hana bæði sem auðlind og atvinnumöguleika í okkar landi. Þetta er hráefni sem við eigum. Og sömuleiðis tel ég að við eigum að nýta hana öðrum til hjálpar, kannski á sviði þróunaraðstoðar. Það eru svo margar hliðar á þessari auðlind sem þarf að fara ofan í saumana á og vista hana þess vegna á einhverjum ákveðnum stað í stjórnsýslunni. Hvort það er Orkustofnun eða Umhverfisstofnun eða einhver slíkur aðili geri ég ekki að aðalatriði heldur að hún sé skilgreind sem auðlind í lögum.

Það þarf að fara fram úttekt á útflutningsmöguleikum á vatni, ég er sammála því. Við eigum þarna möguleika á skynsamlegri auðlindanýtingu innan þeirra marka sem lífríkið heimilar. Við getum skapað atvinnu hér heima. Þetta er hráefni sem við eigum til og erum ekki háð öðrum með þannig að hliðarnar eru ótal margar.

Ég vil að lokum ítreka það sem ég óskaði eftir áðan, herra forseti, að að lokinni umfjöllun verði tillögunni vísað til hv. iðnn. þingsins og við fáum hana síðan aftur fyrir lok þings, vonandi til endanlegrar afgreiðslu.