Óhreyfð skip í höfnum og skipsflök

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:50:07 (661)

2002-10-17 11:50:07# 128. lþ. 13.4 fundur 14. mál: #A óhreyfð skip í höfnum og skipsflök# þál., Flm. KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:50]

Flm. (Katrín Fjeldsted) (andsvar):

Herra forseti. Skemmdir á hafsbotni eru auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri, menn tala um þetta víða um lönd eins og þingmenn þekkja. Vitað er að kórallasvæði skapa náttúruleg uppvaxtarskilyrði fyrir lífið í sjónum og það kom fram í umræðum hér síðasta vor þegar ég bar fram fyrirspurn um þetta atriði, bæði til sjútvrh. og umhvrh., og vísa bara til þess. En menn hafa verið að skrapa hafsbotninn.

Hugmyndin hins vegar með þáltill. er að reyna að fá því svarað hvort það borgi sig ekki í raun að endurvinna brotamálminn, timbrið og plastið úr skipsskrokkunum eða vita hvort einstaklingar eða fyrirtæki hafa áhuga á að endurnýta þau eða nota þessa skipsskrokka á einhvern hátt. Ég held að tímabært sé að láta þetta ekki liggja svona lengur heldur reyna að ná utan um málið og að ekki séu sögusagnir um að það sé svo dýrt að endurvinna þetta heldur viti menn og fái upplýsingar um hvað kosti að endurvinna slíka hluti. Auðvitað kostar líka að láta skip liggja í höfnum og taka þar upp verðmætt pláss sem mætti nýta fyrir önnur skip.

Ég bind því vonir við að slíkt komi út úr þáltill. og það er von mín auðvitað að menn sjái að það borgi sig að nýta þessa skipsskrokka, það borgi sig að endurvinna eins og er jú stefna í umhverfismálum í flestum málaflokkum í veröldinni í dag.