Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:55:44 (663)

2002-10-17 11:55:44# 128. lþ. 13.5 fundur 15. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:55]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998. Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Kristján L. Möller.

1. gr. frv. orðist svo:

,,Á eftir 104. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo ásamt fyrirsögn:

Íbúaþing.

Sveitarstjórn skal að jafnaði einu sinni á hverju kjörtímabili standa fyrir íbúaþingi. Á þinginu skal sveitarstjórn leitast við hlusta eftir skoðunum íbúa sveitarfélagsins og leita samráðs við þá um forgangsröðun verkefna í tengslum við gerð langtímaframkvæmda- og fjárhagsáætlun. Tryggt skal að að allir þátttakendur eigi jafna möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Sveitarstjórn skal að loknu íbúaþingi gera grein fyrir framkomnum tillögum, skoðunum og skoðanaskiptum á þinginu og áformum sveitarstjórnar um eftirfylgni. Þetta verði gert á opnum fundi og/eða með því að birta skýrslu um niðurstöðurnar.

Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd íbúaþings.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum lagði Samfylkingin og okkar fólk úti um land áherslu á að íbúalýðræði og íbúaþing væri gert virkara, íbúaþingið og íbúalýðræði yrði virkara í hverju sveitarfélagi. Ég tel, virðulegi forseti, að það megi ekki hvað síst þakka áherslum okkar á aukið íbúalýðræði þá góðu útkomu sem Samfylkingin fékk í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum.

Með íbúaþingum er ekki átt við það að haldnir séu svokallaðir borgarafundir þar sem sveitarstjórn mætir og kynnir það sem hún er að gera og hugsanlega tekur á móti einhverjum athugasemdum heldur fyrst og fremst sé það þannig að íbúarnir taki virkan þátt í gerð langtímaáætlana, hver í sínu bæjarfélagi, þannig að þeir hafi það á tilfinningunni að skoðanir þeirra séu einhvers metnar. Ekki er verið að draga úr vægi sveitarstjórnarmála eða sveitarstjórnarmanna og ábyrgð þeirra heldur og ekki síður að fá þá til að efla lýðræðislega þátttöku þeirra sem í sveitarfélaginu búa.

Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:

Þær meginbreytingar sem nú eiga sér stað á sveitarstjórnarstiginu í vestrænum þjóðfélögum einkennast af þremur þáttum. Í fyrsta lagi er aukin samvinna við einkageirann og samtök af ýmsu tagi í því skyni að sinna betur tilteknum þjónustuþáttum. Í öðru lagi er valddreifing sem vísar til þeirrar meginreglu að ákvarðanir séu í sem flestum tilvikum teknar af því stjórnvaldi sem er næst íbúunum. Dæmi um þetta hér á landi er flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Í þriðja lagi er á alþjóðavettvangi vaxandi áhersla á þátttökulýðræði.

Sveitarstjórn er það stjórnvald sem er næst íbúum og gegnir því veigamiklu hlutverki við mótun hvers samfélags. Vegna þessarar nálægðar liggur lykillinn að auknu lýðræði, þ.e. að auka vitund íbúanna um ábyrgð og möguleika til áhrifa á framgang og þróun einstakra mála og málaflokka í sveitarfélaginu, hjá sveitarstjórnum.

Með aukinni áherslu á þjónustuhlutverk sveitarfélaga verður samráð við þá sem njóta þjónustunnar, þ.e. íbúana sjálfa, stöðugt mikilvægara. Því má halda fram að hver og ein sveitarstjórn gegni leiðtogahlutverki við að tryggja góða þjónustu.

Af þessum sökum er samráð við íbúana um málefni sveitarfélaga nauðsynlegt. Margt bendir til þess að hollusta við stjórnmálaflokka sé á undanhaldi og víða erlendis fer þátttaka í sveitarstjórnarkosningum minnkandi. Á sama tíma kallar almenningur eftir auknu samráði og þá oftast um einstök málefni, svo sem í skipulagsmálum og skólamálum. Af því má draga þá ályktun að fulltrúalýðræði eitt og sér nægi ekki lengur til að skapa öflug, framsýn og lifandi sveitarfélög. Það getur aðeins gerst með því að íbúarnir taki virkari þátt í mótun samfélagsins.

Sveitarfélög hafa yfir takmörkuðu fjármagni að ráða og því eru átök um forgangsröðun óhjákvæmileg. Ólíkir hópar hafa ólíka sýn og ólíkar þarfir. Samráðsferlið snýst því ekki síst um að tryggja að öll sjónarmið komi fram og að leitað sé leiða til samræmingar. Endanleg ákvörðun er í höndum sveitarstjórnar, sem síðan getur staðið íbúum skil á ákvörðun sinni.

[12:00]

Með því að virkja þá þekkingu og reynslu sem býr í hverju samfélagi fást betri lausnir. Ólíkir hópar í sveitarfélaginu kynnast og læra að hlýða hver á annars sjónarmið. Þannig getur skapast kraftur og samstaða sem getur orðið grunnur að jákvæðum breytingum í sveitarfélaginu.

Lýðræði vísar ekki eingöngu til kosninga. Það vísar til samræðna ólíkra hagsmunaaðila í því skyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu um þau málefni sem brenna á samfélaginu.

Í fulltrúalýðræði er áherslan á baráttu, þ.e. fulltrúar berjast fyrir kjöri og stjórnmálaflokkar berjast innbyrðis innan yfirstjórnar. Þannig dregur þetta ferli fram ágreiningsmál. Með auknu samráði við íbúa, þar sem beitt er aðferðum sem draga fram sameiginlegar áherslur, fæst ákveðið jafnvægi inn í það ákvarðanaferli sem beitt er við stjórnun sveitarfélagsins.

Meðal þess sem vinnst með auknu íbúalýðræði er að almenningur verður meðvitaðri um málefni sveitarfélagsins, sem undir venjulegum kringumstæðum eru eingöngu til umfjöllunar meðal kjörinna fulltrúa og embættismanna. Þannig á sér stað uppfræðsla og menntun sem stig af stigi styrkir grunninn undir aukna aðkomu íbúa að ákvörðunum. Með þátttökunni er brúað bilið milli almennings og kjörinna fulltrúa og íbúar fengnir til liðs við sveitarstjórnir í ákvarðanatöku. Þannig eykst skilningur íbúa á nauðsyn málamiðlunar.

Almennt ríkir heldur takmarkað traust milli sveitarstjórna og íbúa. Þegar stigin eru skref í átt að auknu samráði snúast þau í fyrstu um að byggja upp þetta traust. Ef sveitarstjórn boðar til opins samráðs og nýtir síðan niðurstöðurnar við ákvarðanatöku, sjá íbúar ástæðu til að taka frekari þátt í mótun samfélagsins. Þannig getur traust milli þessara tveggja aðila, sem hvor um sig skiptir sköpum um hag sveitarfélagsins, vaxið stig af stigi.

Notað hefur verið hugtakið ,,félagslegur auður`` um það traust sem þannig myndast. Það hefur m.a. verið skýrt á eftirfarandi hátt:

Einn hagnýtur afrakstur þátttöku, er myndun ,,félagslegs auðs``. Félagslegur auður er það traust og trúnaður sem þróast þegar stjórnvöld og hið almenna samfélag koma saman til að vinna að sameiginlegum hagsmunum, samfélaginu til góða, segir stjórnmálafræðingurinn Robert Putnam. Félagslegur auður er grunnurinn að lögmæti opinberra stjórnvaldsstofnana og er nauðsynlegur fyrir áhrifaríka og árangursríka stjórnun. Án félagslegs auðs, þegar traust og trúnaður er ekki til staðar, getur það stöðvað framvindu aðgerða stjórnvalda; til lengri tíma litið virka samfélög án trausts illa og í verstu tilfellum getur brotist út ofbeldi milli andstæðra fylkinga samfélagsins. Samstarf og samráð stjórnvalda við almenning geta skipt sköpum í að efla þann félagslega auð sem er til staðar og byggja hann upp frá grunni þar sem hann hefur ekki þekkst áður.

Ýmsar leiðir eru færar til samráðs sveitarstjórnar við íbúa, en þar er lykilatriði að farvegurinn sé skilgreindur og ljós. Í fámennum sveitarfélögum, þar sem aðgengi íbúa að sveitarstjórnarfólki er mjög gott, getur það þó aldrei komið í stað formlegs samráðs sem sveitarstjórn boðar til, með það að markmiði að hlýða á raddir íbúa.

Lengst getur sveitarstjórn gengið með því að boða til almennrar og bindandi atkvæðagreiðslu um tiltekin mál.

Tilgangur íbúaþings, eins og hér er vísað til, er að sveitarstjórnir boði til opins samráðs við íbúa um forgangsröðun verkefna í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar og langtíma verkefnaáætlunar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að íbúaþing sé haldið að jafnaði einu sinni á hverju kjörtímabili. Eðlilegast verður að telja að íbúaþing séu haldin á fyrri hluta hvers kjörtímabils enda mest um vert fyrir nýkjörnar sveitarstjórnir að leita samráðs við íbúa áður en þær hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Hætt er við að íbúaþing stuttu fyrir kosningar missi marks af ýmsum ástæðum. Mikilvægt er að notaðar verði aðferðir sem tryggja að allir þátttakendur eigi jafna möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Á íbúaþingi verði megináhersla á að hlusta eftir skoðunum íbúa, frekar en kynningar af hálfu sveitarstjórnar. Má segja að þetta sé það sem aðgreinir íbúaþing frá hefðbundnum borgarafundum. Æskilegt er að óhlutdrægur aðili verði fenginn til að stýra samráðinu.

Ekki er gert ráð fyrir að ályktanir séu gerðar á íbúaþingum enda hér fyrst og fremst um samráðsvettvang að ræða og það er síðan hlutverk sveitarstjórna að vinna úr því sem fram kemur.

Að loknu íbúaþingi gerir frumvarpið ráð fyrir að sveitarstjórn geri grein fyrir framkomnum tillögum, skoðunum og skoðanaskiptum á þinginu og áformum sveitarstjórnar um eftirfylgni. Þetta verði gert á opnum fundi og/eða með því að birta skýrslu um niðurstöðurnar.

Loks gerir frumvarpið ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd íbúaþings.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í greinargerðinni og reyndar texta frv. sjálfs er hér tillaga á ferðinni um að lögfesta að haldið verði reglubundið samráð við íbúa og að sveitarstjórnum sé skylt að halda einn samráðsfund með íbúum viðkomandi sveitarfélags minnst einu sinni á kjörtímabili. Í stærri sveitarfélögum, hér t.d., má gera ráð fyrir að slík íbúaþing yrðu haldin á fleiri en einu svæði þar sem skoðanir íbúa eða þarfir og þau mál sem brenna mest á á hverju svæði verða að komast til skila. En ekki er víst að þarfirnar í einstökum hverfum --- t.d. í Reykjavík og hugsanlega Akureyri, Kópavogi, Hafnarfirði og stærri sveitarfélögum og þeim sveitarfélögum sem hafa sameinast úr mörgum smáum sveitarfélögum --- og það sem mest brennur á á hverju svæði sé algerlega það sama. Eðlilegt verður því að teljast að íbúaþingið sé haldið ekki bara á einum stað heldur fylgt eftir í smærri einingum hvers sveitarfélags.

Hér er ekki um algert nýnæmi að ræða. Ég vil benda á fyrirtæki sem hér er starfandi. Þar hafa ungar og vaskar konur komið á og staðið fyrir svokölluðum íbúaþingum á vegum sveitarfélaga, m.a. í Vestur-Skaftafellssýslu og fleiri stöðum á landinu, t.d. Kjalarnesi, reyndar í Reykjavík, og Kópavogi. Þær hafa sérhæft starfsemi sína, þ.e. að stýra og skipuleggja slík íbúaþing þannig að þau skili árangri. En það hefur auðvitað lítið að segja að halda íbúaþing, jafnvel þó þau séu lögbundin, ef þeim er ekki fylgt eftir. Það er því nauðsynlegt að sveitarstjórnarmenn geri sér grein fyrir því að það verður bæði að skila skýrslu um niðurstöðurnar og gera íbúum grein fyrir því hvernig tillögum þeirra er fylgt eftir. Það hefur verið mjög skemmtilegt að fylgjast með starfi þessara dugnaðarkvenna í fyrirtækinu Alta, hvernig þær hafa dregið íbúa, ekki bara þá sem eru kjörgengir eða með kosningarrétt heldur alla íbúa, að borðinu og fengið fólk til virkrar þátttöku í því að móta samfélagið í kringum sig. Í því hafa m.a. börn og unglingar tekið virkan þátt.

Ég er sannfærð um að við gerð langtímaáætlana, sem er auðvitað lögbundið hlutverk sveitarstjórna, er nauðsynlegt og mjög gott fyrir hvert sveitarfélag, sveitarstjórnarmennina og fyrir þróun samfélagsins að íbúarnir sjálfir finni að mark sé tekið á því sem þeir segja. Og til þess að fyrirbyggja allan misskilning þá er þetta allt annað fyrirkomulag heldur en svokallaðir borgarafundir þar sem ákvarðanir eða fyrirætlanir einstakra sveitarstjórna eru kynntar og ræddar en kannski ekki svo mikið gert með þær athugasemdir sem fram koma frá íbúunum. Það verður að gera skýran greinarmun á þessu. Ég tel nauðsynlegt að lögbinda þetta ferli þannig að allir sveitarstjórnarmenn geri sér grein fyrir því að þetta er þeirra hlutverk, þ.e. að efla þátttökulýðræðið í sveitarfélaginu og gera íbúana meðvitaðri um þarfir sveitarfélagsins og framtíðarstefnu og möguleika hvers sveitarfélags.

Ég legg til að frv. verði vísað til hv. félmn. að lokinni þessari umræðu og vil gjarnan koma því á framfæri sem 1. flm. frv. að ég tel nauðsynlegt að það fari í umsögn til allra sveitarfélaganna og samtaka sveitarstjórnarmanna og þá ekki síst til þess að ýta þessari hugmynd á flot og gefa mönnum færi á að segja skoðanir sínar á efni frv. og greinargerð.

Í Vestur-Skaftafellssýslu var íbúaþing haldið. Síðan var skilað mjög ítarlegri og viðamikilli skýrslu til íbúanna um framkvæmdina og tillögurnar sem fram komu og hafðar eru að leiðarljósi í starfsemi sveitarstjórnanna þar. Reyndar ætlaði ég að láta hana fylgja með frv. sem fylgiskjal. Ég vil fara fram á það, virðulegi forseti, þegar nefndin sendir málið til umsagnar að sýnishorn af skýrslunni fái að fylgja með, vegna þess að þetta er dálítið viðamikið plagg sem talið var erfitt að láta fylgja með í þingskjölum.