Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:45:21 (671)

2002-10-17 12:45:21# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:45]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur ítrekað komið fram í umræðum á Alþingi af hálfu hæstv. dómsmrh. að hún hafi hug á að efla grenndarlöggæslu svokallaða og get ég vissulega tekið undir þá markmiðssetningu. En ég verð að segja eins og er að mig undrar á hvaða vegferð hæstv. ráðherra er þegar í ljós kemur að fjárveitingar til almennrar löggæslu hafa verið skornar niður að raungildi á undanförnum árum á sama tíma og ríkulega er veitt til embættis ríkislögreglustjóra. Virðist þessi leið vera ótrúlega krókótt og flókin ef markmiðið er að efla grenndarlöggæslu í landinu.

Það er talandi dæmi um þessa skrýtnu aðferðafræði að á sama tíma og gríðarleg fjölgun hefur orðið á sumarbústöðum í Rangárvallasýslu sem eru nýttir meira og minna allt árið og umferðarþungi um sýsluna hefur aukist mjög þá verður að fækka í lögregluliðinu vegna rekstrarfjárskorts. Í umræðum hér um fyrirspurn í gær kom fram að hæstv. ráðherra fannst þingheimur ekki nógu jákvæður vegna þess sem vel hefur verið gert. Ég ætla því að tilfæra mjög jákvætt dæmi um árangur vegna grenndarlöggæslu í minni heimabyggð.

Fyrir nokkrum árum var mikið áhygguefni íbúa í Keflavík og nágrenni að unglingar söfnuðust saman í miðbænum um kvöld og nætur á helgum og virtist vandamálið óyfirstíganlegt. Lögregla, félagsmálayfirvöld og foreldrar í bænum skáru upp herör gegn þessu vandræðaástandi og tókst að kveða það niður. Þetta er dæmi um góða grenndarlöggæslu.

Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, til að fyrirbyggja misskilning að þetta gerðist ekki fyrir tilstilli embættis ríkislögreglustjóra.