Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:49:49 (673)

2002-10-17 12:49:49# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:49]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Einn af forsvarsmönnum í sveitarstjórnargeiranum á Suðurnesjum sagði við mig í morgun: ,,Stjórnarandstaðan er að reyna að kjafta upp einhverja óánægju með löggæsluna í landinu.`` Ég fer að halda, herra forseti, að það sé staðreyndin. Eftir skoðun mína og viðtöl við sveitarstjórnarmenn bæði í gær og í dag og við sýslumenn á Suðurnesjum og á Hornafirði þá er ekkert í spilunum sem bendir til þeirrar óánægju sem mér finnst koma fram í dag og í gær með störf lögreglunnar almennt.

Ég talaði við sveitarstjórnarmenn í Reykjanesbæ, í Grindavík, í Garði, í Sandgerði og á Höfn í Hornafirði. Í stuttu máli eru forsvarsmenn á Suðurnesjum og í Höfn almennt ánægðir með löggæsluna eins og hún er rekin í dag. Það er samningur um löggæsluna í Grindavík. Það er samningur um gagnkvæma aðstoð milli sýslumannsembættanna í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli þegar þurfa þykir. Það er samningur milli fjögurra embætta um eftirlit á Reykjanesbrautinni, sem hefur leitt til þess að slysum hefur fækkað þar, og það er mjög gott samstarf lögreglunnar í Keflavík við forvarnahópa um fíkniefnamál og um grenndarmál almennt. Að þessu leyti er því mjög góð samvinna og vaxandi samstarf á þessu sviði.

Lögreglan í Hornafirði fékk aukið fjármagn í ár fyrir fjórða lögreglumanninum og það stendur ekki til að skera það niður. Fyrir utan þessa fjóra eru tveir héraðslögreglumenn á Hornafirði. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur, herra forseti, og auka fjármagn. Allt tal um ófremdarástand á þessu sviði er þó algerlega úr lausu lofti gripið og sýnir aðeins örvæntingu stjórnarandstöðunnar sem fyrir nokkru var að reyna að keyra upp óánægju með einkavæðinguna, sem fór um koll, og ég geri ráð fyrir því að þessi umræða fari á sama veg. (Gripið fram í: Og einkavæðingin?)