Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:37:34 (679)

2002-10-17 13:37:34# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:37]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Íslenska ríkisstjórnin sem og íslenska þjóðin eru friðelskandi fólk sem vill auðvitað forðast stríðsástand hvarvetna í veröldinni og auðvitað líka í Írak ef þess er nokkur kostur. Afstaða ríkisstjórnarinnar hefur komið fram annars vegar í ræðum hæstv. utanrrh. á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og eins í stefnuræðu minni fyrir fáeinum vikum. Þar kom fram sú eindregna afstaða að mál þetta skyldi rekið undir merkjum eða a.m.k. ályktunum og ákvörðunum hinna Sameinuðu þjóða, enda væri málið þaðan runnið. Ályktun var gerð þar áður en lagt var til atlögu við Írak eftir innrás þeirra í Kúveit á sínum tíma. En jafnframt hefur verið tekið fram, m.a. af hæstv. utanrrh., Halldóri Ásgrímssyni, að spurningin gæti einnig verið um trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna og hvort þau göfugu samtök geti haldið fram vilja sínum og ekki sé hægt að útiloka það að einstök ríki fari með einhliða hernað gagnvart Írak sem hljóti þó að vera í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefur verið afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar.

Varðandi hugsanlega tillögu Bandaríkjanna, þá er sú tillaga ekki komin fram þótt hún hafi legið í loftinu. Það er enn þá verið að véla um þessa hluti einkum og sér í lagi á milli þeirra fimm ríkja sem fara með neitunarvaldið í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Tillagan er því ekki komin fram, og fyrir fram getum við út af fyrir sig ekki sagt til um hver afstaða okkar verður. Það rekur engar nauðir til þess. Við tökum beina afstöðu til málsins nú vegna þess að umræður um þá tillögu eru enn þá í mótun. En ég nefni á nýjan leik að við höfum sagt að ekki sé hægt að útiloka ef allt um þrýtur að beita þurfi hervaldi í Írak. Hótanir um hervald hafa þegar bersýnilega leitt til þess að einræðisstjórn Saddams Husseins Íraksforseta er að gefa eftir stig af stigi.

Þá er spurt um hvernig áhættan sé metin af innrás Íraka með hliðsjón af því að stríðsátök í Mið-Austurlöndum gætu breiðst út og falið í sér þátttöku herskárra hópa í mörgum ríkjum í þeim heimshluta og tilraun til þess að draga Ísrael inn í ófriðinn. Það er mjög erfitt að dæma um þetta fyrir fram. Við höfum haft marga spádóma til að mynda í Persaflóastríðinu, og eins þegar gerð var árás sérstaklega á Líbíu á sínum tíma, þá var talið af margvíslegum fræðimönnum að þær mundu leiða til þess að hryðjuverk mundu færast í aukana en hið þveröfuga gerðist. Úr hryðjuverkum dró um allan heim við þær árásir. Því er afskaplega erfitt að meta þetta en spurningin hlýtur einnig að vera sú hvort ekki væri meiri hætta á því ef Saddam Hussein er látinn óáreittur við iðju sína og síðan verði gripið í taumana, að þá verði vandinn enn þá stærri og áhættan enn þá meiri.

Þá er spurt um það hvernig metin séu áhrif af mögulegri innrás í Írak sem m.a. sé réttlætt með því að Írakar hafi brotið gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna með hliðsjón af deilu Ísraels og Palestínumanna í ljósi ítrekaðra brota Ísraelsstjórnar á ályktunum öryggisráðsins eins og þar segir. Ég tel að það sé afar hæpið að líkja þessu saman eða blanda þessu saman á nokkurn hátt. Það verður að hafa í huga að þær ályktanir sem annars vegar gilda um Írak og hins vegar um Ísrael og Palestínu eru gerólíks eðlis. Þær ályktanir sem snúa að Palestínu og Ísrael eru bundnar við VI. kafla ályktana öryggisráðsins sem fjallar um friðsamlega lausn á deilum ríkja og heimila öryggisráðinu að setja fram tilmæli sem ekki eru bindandi fyrir aðildarþjóðirnar. En á hinn bóginn veita þær ályktanir sem falla undir VII. kafla öryggisráðinu víðtækari völd, m.a. til stríðsaðgerða. Slíkar ályktanir eru bindandi fyrir allar aðildarþjóðir innan Sameinuðu þjóðanna þannig að á þessu er reginmunur. Þær ályktanir sem öryggisráðið samþykkti vegna Íraks í kjölfar árásarinnar inn í Kúveit féllu allar undir VII. kafla en engar af þeim ályktunum sem samþykktar hafa verið um deilu Ísrael og Palestínu falla undir VII. kafla. Meðal annars palestínskir diplómatar viðurkenna þennan mun á þessum ályktunum og ég hygg að við hljótum að gera það einnig. Á þessu er því reginmunur.

Það má segja að um ákvarðanir VII. kafla öryggisráðsins gildi það sama og gilti í fornum rétti hér þar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki her frekar en við höfðum lögregluvald á 11., 12. og 13. öld, að þá er hverjum borgara og ríki heimilt að fylgja eftir ályktunum Sameinuðu þjóðanna með vopnavaldi.