Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:42:53 (680)

2002-10-17 13:42:53# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Íslendingar eru friðelskandi þjóð og ég held að ekki sé mjög mikill munur á þeim viðhorfum sem fram koma í þessum sölum. Deilan snýst e.t.v. um það, hið sama og reyndar á alþjóðavettvangi, hvort beita eigi hervaldi að undangenginni ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða hvort heimila eigi Bush Bandaríkjaforseta annaðhvort formlega eða með siðferðilegum stuðningi Vesturlanda, þeirra þjóða sem oft hafa staðið saman, að fara og beita hervaldi án þess að öryggisráðið hafi tekið undir það.

Ég og minn flokkur erum þeirrar skoðunar að Saddam Hussein eigi ekki að komast upp með það að skaka skellum að heiminum. Öryggisráðið á að sjálfsögðu að fara fram á að það verði kannað með hvaða hætti hann stendur að vopnaframleiðslu og hvaða aðgerðir kunni að vera þar í undirbúningi en það verður að vera öryggisráðið sem tekur ákvörðun um það. Og ef í kjölfarið er nauðsynlegt að grípa til einhvers konar hernaðarlegrar íhlutunar, þá hlýtur það að vera öryggisráðið. Það er einungis að því undangengnu sem hægt er að fallast á að hervaldi verði beitt.

Herra forseti. Ég rifja það upp að í kjölfar þeirra skelfilegu voðaverka sem urðu 11. september í fyrra þá töluðu menn um að það væri nauðsynlegt að ráðast gegn hryðjuverkum með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi með því að ganga milli boðs og höfuðs á hryðjuverkasamtökunum al Qaeda, og það var gert í Afganistan með stuðningi allra Vesturlanda með mjög einbeittum hætti. Hins vegar var líka talað um það að nauðsynlegt væri að ráðast að hinum raunverulegu orsökum hryðjuverka. Hver eru þau og hvernig er það gert? Það verður gert með því að Vesturlönd láti það sjást að þau vilji jafna lífskjörin í hinum íslamska heimi, að þau styðji ekki ríkisstjórnir sem þar hafa verið við völd með ólýðræðislegum hætti mjög lengi. Og ekki er hægt að ljúka við þetta mál, herra forseti, án þess að minnast á Palestínu. Palestína og það hvernig óöld ríkir þar að mér liggur við að segja stundum í skjóli Bandaríkjanna og hlutleysis þeirra, hlýtur auðvitað að leiða til þess að þar verða til ungir menn sem eru reiðubúnir til þess að láta lífið í hryðjuverkum og sjálfsmorðsárásum.