Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:46:42 (682)

2002-10-17 13:46:42# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:46]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Vikum saman hefur Bandaríkjastjórn lagt hart að öðrum ríkjum, einkum þeim sem eiga sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, að fá stuðning til að ráðast með hervaldi gegn Írak. Þær ályktanir sem þegar hafa verið samþykktar í ráðinu eru Bandaríkjastjórn ekki að skapi, að því er virðist vegna þess að ekki hefur verið gefin út bein stríðsheimild gegn Írökum. Bandaríkjaforseti þrástagast á þeirri hernaðarógn sem hann telur stafa af Írak. En hverjum stafar ógn af Írak, Bandaríkjunum? Það hefur ekki heyrst um nein áform Íraka að ráðast á Bandaríkin að fyrra bragði í erlendum fjölmiðlum. Lesa má í fjölmiðlum fjölda greina um að Írakar séu langt frá því að búa yfir tæknilegri getu til að geta ráðist á Bandaríkin í 8.000 km fjarlægð.

Bandaríkjastjórn heldur því fram að Saddam Hussein sé eitt mesta illmenni heimsbyggðarinnar og hér skulu ítrekuð þau orð hv. málshefjanda í þessari umræðu, að þar fer að sjálfsögðu einn ógeðfelldasti þjóðarleiðtogi allrar veraldarinnar. En við Saddam Hussein áttu Bandaríkjamenn ábatasöm viðskipti í meira en áratug og Saddam Hussein er maðurinn sem Bush eldri studdi með fjárframlögum meðan ríkisstjórn hans beitti efnavopnum gegn eigin þegnum. Persaflóastríðið, herra forseti, var ekki háð til að koma Saddam Hussein frá, heldur til að eyðileggja efnahagsundirstöður íröksku þjóðarinnar. Þetta hefur einnig verið markmið viðskiptabannsins sem enn er við lýði.

Herra forseti. Í erlendum fjölmiðlum hefur mátt lesa fjöldann allan af frásögnum um það að alþjóðleg olíufyrirtæki komi að borðinu á bak við tjöldin. Ef svo er þá er það í sjálfu sér óskiljanlegt að Bandaríkjastjórn skuli geta hugsað sér að fórna eigin hermönnum og óbreyttum borgurum í Írak fyrir hagsmuni olíufyrirtækjanna. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir hér er auðvitað sú hvort íslensk stjórnvöld ætla að láta draga sig inn í slík átök sem yrðu, hvernig sem á það er litið, stríð gegn friði.