Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:48:59 (683)

2002-10-17 13:48:59# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum í fyrra hafa haft gífurlegar afleiðingar á sviði öryggismála, alþjóðastjórnmála og alþjóðaviðskipta. Þeir atburðir minntu okkur óþyrmilega á að við getum ekki gengið út frá öryggi sem gefnu. Það er auðvitað stærsti lærdómurinn sem við getum dregið af þeim voðaverkum. Ekki þarf að fjölyrða um afleiðingar þess ef harðstjórar, einræðisherrar og hryðjuverkasamtök kæmust yfir gereyðingarvopn til að nota í glæpsamlegum tilgangi gegn þeim sem þeir telja óvini sína.

Ástandið í Írak er ógn við heimsfriðinn sem verður að linna. Íraksstjórn hefur hingað til haft að engu ályktanir Sameinuðu þjóðanna um þessi mál og þannig komist hjá því að unnt yrði að fylgjast með sannanlegri framleiðslu þeirra á gereyðingarvopnum. Meðan svo háttar er friður og öryggi allra þjóða heims í hættu.

Mikill þrýstingur er nú á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á að leiða þessi alvarlegu mál til lykta og telja margir að trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna sé í húfi. Bandaríkjaforseti hefur sett fram mjög afgerandi stefnu gagnvart Írak og freistar þess nú að vinna henni fylgi innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Herra forseti. Það hlýtur að skýrast á næstu dögum hvort öryggisráðinu tekst að ná ásættanlegri niðurstöðu um aðgerðir gegn Írak, sem hljóta fyrst og fremst að byggja á pólitísku mati þeirra þjóða sem skipa öryggisráðið. Aðalatriðið hlýtur að vera að afvopna Íraksstjórn, koma í veg fyrir að hún eignist gereyðingarvopn og kjarnorkuvopn og tryggja þannig að þjóðum heims stafi ekki hætta af hugsanlegum aðgerðum Íraka gegn heimsfriðnum.