Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:53:21 (685)

2002-10-17 13:53:21# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Árið 1990 var samþykkt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna mjög umdeild ályktun um heimild til að beita valdi gegn Írak. Í kjölfar Persaflóastríðsins, sem svo er nefnt, hafa verið samþykktar fleiri ályktanir í öryggisráðinu, þar á meðal frá 1991 og aftur ítrekuð 1998 þar sem vísað er til afvopnunar og eftirlits með vígbúnaði í þeim heimshluta. Sá skilningur var ríkjandi í arabaheiminum að eftirlit með gereyðingarvopnum, sýkla- og efnavopnum, ætti að taka til stærra svæðis en Íraks eins, þar á meðal til Ísraels. En Ísraelsríki hefur komist upp með að neita öllu eftirliti og sama gildir um önnur ríki á því svæði sem vitað er að búa yfir gereyðingarvopnum. Talið er að Íranar séu nú að koma sér upp gereyðingarvopnum, kjarnorkuvopnum, og ekki er langt síðan heimsbyggðin stóð á öndinni vegna yfirvofandi kjarnorkustyrjaldar á milli Indlands og Pakistans.

En hvers vegna vilja Bandaríkjamenn fá uppáskrift til að ráðast á Írak? Það er ekki vegna þess að þar er harðstjóri við völd. Bandaríkjastjórn studdi þennan sama mann allan níunda áratuginn og það er kaldhæðnislegt að sá sem annaðist milligöngu á milli Bandaríkjastjórnar og Íraksstjórnar á þeim tíma var Donald Rumsfeld, einn aðalhaukurinn núna í Bush-stjórninni. Hann þrýsti hönd Husseins á flugvellinum í Bagdad árið 1983 þegar Írakar fengu búnaðinn í efnavopn frá Bandaríkjunum. Þetta er staðreynd.

Að mati óvilhallra sérfræðinga í alþjóðamálum er ástæðan fyrir því að Bandaríkjastjórn vill ráðast á Írak sú að þeir eru að slægjast eftir olíuhagsmunum. Írakar eru taldir búa yfir eins miklum olíuauðæfum og Sádi-Arabar.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að óska eftir því að íslenska ríkisstjórnin taki undir með mannréttindahreyfingum, trúarhreyfingum og verkalýðshreyfingum um heim allan og fordæmi yfirgang Bandaríkjastjórnar. Það er svo að þeir sem fylgja Bandaríkjastjórn að málum í þessu efni eru annaðhvort börn eða bandingjar. Börn eru yfirleitt réttsýn.

Herra forseti. Það er barnalegt að ímynda sér að annað vaki fyrir Bandaríkjastjórn en að tryggja hernaðarlega hagsmuni sína og peningalega. En varðandi bandingjana þá er það ömurlegt hlutskipti ef Íslendingar ætla að leggjast á hnén í þessu máli eins og allt virðist benda til.