Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 14:32:31 (692)

2002-10-17 14:32:31# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Um þetta þingmál þarf ekki að hafa mörg fleiri orð. Hér hefur verið gerð ágæt grein fyrir þáltill. þessari sem lögð er fram af öllum þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, en 1. flm. er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Þessi þáltill. er sprottin upp úr atvinnumálastefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og gengur út á að styðja atvinnurekstur í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Við höfum áður lagt fram þingmál af svipuðum meiði, þ.e. till. til þál. um sérstakt átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Það þingmál hefur tvívegis verið flutt og beinist að verkefnum á sviði þróunar, byggða, viðskipta- og menningarmála. Við vildum byrja á að veita framlag til atvinnuuppbyggingar á Austurlandi, 400 millj. kr. fyrsta árið en alls mundi átakið taka til sex ára. Þótt við vildum hefja þetta uppbyggingarstarf á Austurlandi vildum við að það tæki einnig til annarra landshluta.

Við höfum teflt þessari stefnu fram gagnvart stjórnarstefnunni sem byggir á stóriðju og risaverksmiðjum í anda Jósefs Stalíns fyrir einhverjum áratugum síðan. Mér fannst athyglisvert í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann sagði frá ráðstefnu sem hann hafði sótt um þetta málefni, hvernig mætti styrkja smá og meðalstór fyrirtæki. Hann benti á að víða um veröld væru menn farnir að beina sjónum sínum að þess konar atvinnurekstri. Það er ekki aðeins á Íslandi að slíkt er talið heppilegt. Það er augljóst að Íslendingum ber að beina sjónum sínum að slíkum atvinnurekstri þótt ekki sé vegna annars en smæðar samfélagsins. Þá er heppilegra að efla smáiðnað og smárekstur, t.d. á Austurlandi þar sem atvinnusvæðið er ekki þéttbýlt. Líklega búa innan við 10 þúsund manns á atvinnusvæðinu sem áformað er að fara í virkjanaframkvæmdir og reisa málmiðjuver. Ljóst er að þar þarf að flytja inn atvinnuafl.

Ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið. Menn telja að smá og meðalstór fyrirtæki séu fremur atvinnuskapandi en hin risavöxnu fyrirtæki þar sem mannaflaþörfin er ekki í neinu samræmi við fjárfestinguna. Fjármunir sem varið er til uppbyggingar smáiðnaði og smáfyrirtækjum nýtast miklu betur til þess að skapa störf.

Annað kom fram í máli hv. þm., þ.e. að í smáu fyrirtækjunum nýtur frumkvæði og nýsköpun sín betur. Rannsóknir hafa sýnt að þegar allt kemur til alls er framlag stórfyrirtækjanna varðandi nýsköpun oft að þau kaupa og gleypa þessi smærri fyrirtæki. Þetta mun alla vega eiga við á ýmsum sviðum þótt ekki skuli gert lítið úr því sem fram fer á sviði rannsókna hjá stórum og öflugum fyrirtækjum.

Þegar við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, höfum ferðast um landið hefur eitt staðið upp úr öllum sem við höfum rætt við og koma úr atvinnulífinu, þ.e. þörfin á ódýru fjármagni. Enginn þeirra fer þess á leit að fá peningana gefins, aðeins að þeir séu ekki reiddir fram á okurkjörum, þeim okurkjörum sem fjármálakerfið hér býður því miður upp á.

Sú var tíðin að við höfðum ýmsa fjárfestingarsjóði í atvinnulífinu, fjárfestingarsjóði sem í tíð þessarar ríkisstjórnar, þeirrar sem nú situr, voru sameinaðir undir hatt FBA, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem síðar var innlimaður í Íslandsbanka. Nú er á nýjan leik farið að tala um að stofna til fjárfestingarbanka atvinnulífsins í einhverju formi og hafa m.a. komið fram hugmyndir um að slíkt verkefni yrði á hendi Byggðastofnunar, að henni yrði breytt í lánastofnun í ríkari mæli en hún er núna. Við erum reiðubúin að skoða alla kosti í þessu efni en við leggjum áherslu á það í þessu þingmáli að kannað verði hvernig tryggja megi smáfyrirtækjum aðgang að fjármagni, að ráðgjöf og upplýsingum. Þar kæmi vissulega til álita að skoða breytt hlutverk Byggðastofnunar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en ég vona að þetta þingmál fái skjóta afgreiðslu, verði sent út til umsagnar og fái síðan samþykki Alþingis að lokinni þeirri skoðun.