Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:06:16 (696)

2002-10-17 15:06:16# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. átti kollgátuna þegar hann sagði að það glaðnaði yfir mér þegar hann nefndi lítil fyrirtæki í tengslum við Evrópusambandið. Það glaðnar alltaf yfir mér þegar mínir ágætu vinir innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs koma í þennan ræðustól og sjá eitthvað jákvætt við Evrópusambandið. Yfirleitt er málflutningur þeirra þannig að þar sé ekkert jákvætt hægt að finna. En ég auðvitað tók eftir þessu í máli hv. þingmanns. Síðan kemur þetta einnig fram í greinargerð með ágætri tillögu þingmannsins. Það er einfaldlega þannig að innan Evrópsambandsins hafa menn tekið mjög fast á í þessum efnum og það sem Evrópusambandið hefur umfram margar ríkisstjórnir er sú stefna þeirra að búa til framkvæmdaáætlun sem er nokkuð praktísk og sem hægt er að hrinda í framkvæmd alveg eins og við sjáum í byggðamálunum. Auðvitað gladdi það mig að sjá hv. þingmann fallast á þetta.

Hins vegar kem ég aðallega hingað, herra forseti, til að segja að tillagan verðskuldar það að menn taki undir með flutningsmönnum og ég kem hingað sem þingmaður Samfylkingarinnar til þess að segja að það efni sem er í henni hugnast mér ákaflega vel. Af því að ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er áhugamaður um að skipta um ríkisstjórn í landinu og leggja áherslu á annars konar atvinnustefnu en hefur verið aðall núverandi get ég sagt að þetta sem er að finna í þingmáli hv. þm. VG er ákaflega gott framlag til umræðu um það hvernig eigi í framtíðinni að stjórna í landinu og hvernig eigi að beita ríkisvaldinu til þess að byggja upp atvinnulífið á jákvæðari hátt.

Nú er það þannig, herra forseti, að svipaðar áherslur eru í atvinnustefnu Samfylkingarinnar. Við höfum verið að móta stefnu um smáfyrirtækin og það er sérstaklega einn hlutur þar sem ég hefði haft gaman af að gera að umræðuefni hér en það er einmitt áherslan sem við leggjum á að örva konur til að taka þátt í að stofna fyrirtæki, fyrst og fremst smáfyrirtæki.