Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:12:51 (699)

2002-10-17 15:12:51# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Um aðferðafræði og framgang mála í Brussel er auðvitað verið að gera ýmislegt af metnaði og góðum hug. Það er alveg ástæðulaust að draga fjöður yfir það. Það er að vísu ekki þannig að menn hafi fundið þar upp hið fullkomna ríki og þar sé allt óskeikult. Við skulum líka átta okkur á því að sumt af því sem hv. þm. nefndi, eins og byggðastyrkir og annað í þeim dúr, eru auðvitað mótvægisaðgerðir í eðli sínu. Það eru í eðli sínu mótvægisaðgerðir gegn þeim áhrifum innri markaðarins og markaðsvæðingu viðskipta í Evrópu og á öllu Evrópska efnahagssvæðinu sem menn átta sig auðvitað á að getur haft neikvæðar og mjög slæmar afleiðingar ef ekkert er að gert. Má þá kannski segja að að þessu leyti sé þetta fyrst og fremst til marks um að menn eru meðvitaðir um að við innri markaði og því olnbogarými sem fjármagni og atvinnurekstri, og færslu vinnuafls þar með, er gefið þarf að bregðast með ýmsum mótvægisaðgerðum eins og þeim að styrkja byggðarlög og svæði sem hallar á. Þar skiptir náttúrlega frumkvöðlastarfsemi, uppfinningar og atvinnurekstur í smáum stíl mjög miklu máli.

Ég held líka, herra forseti, að nauðsynlegt sé að minna á að þetta er nátengt þeirri hugsun að meginundirstöðurnar sem eru auðvitað menntun, rannsóknir og áhersla á þekkingu og mannauð, hanga saman. Í raun og veru eru þetta hliðar á sama teningnum, og það er ekki síður þar sem ég held að Íslendingar verði alvarlega að gá að sér ef ekki á illa að fara. Við með okkar blessuðu ríkisstjórn sem einlínir á blinda stóriðju verðum leidd út í miklar ógöngur ef menn vanrækja slíka undirstöðu og vanrækja það að hlúa að grasrótinni og vökva hana og næra.