Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:15:15 (700)

2002-10-17 15:15:15# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:15]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Tillagan sem hér er til umfjöllunar, um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri hjá smáum og meðalstórum fyrirtækjum, er góðra gjalda verð. Fáist hún samþykkt á hv. Alþingi tel ég að hér sé verið að stíga gott spor og byggja undir framtíðina.

Það er einfaldlega þannig, eins og segir í tillögunni, að það eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem byggja upp nýtt atvinnulíf. Það eru þau sem fjölga störfum í landinu. Stórfyrirtækin og samþjöppunin, t.d. í sjávarútvegi, eru alls ekki að fjölga störfum. Störfum fækkar, hríðfækkar í kjölfar samþjöppunar. Hagkvæmni stórfyrirtækjanna er í raun aðeins fyrir þá sem eiga fjármagnið og stórfyrirtækin. Slík fyrirtæki eru rekin til að skapa eigendum fyrirtækjanna arð og þar er keyrt á hagkvæmni fjármagnsins og við það fækkar störfum í undirstöðugreinum í byggðum landsins.

Sem betur fer hafa fjölmörg fyrirtæki hér á landi verið að gera góða hluti þó að þau hafi ekki verið starfandi í sjávarútvegi á undanförnum árum. Þar má nefna fyrirtæki eins og POLS á Ísafirði, 3X-Stál, Marel og Skagann hf. á Akranesi. Síðan má auðvitað nefna að ferðamannaþjónustan vex stöðugt en þá erum við í raun komin í hring. Við erum í raun komin aftur að þeim afleiðingum sem samþjöppun veiðiheimilda og stórfyrirtækin hafa á byggðina. Ísland sem ferðamannaland er í mínum augum ekki mjög verðmætt ef það helst ekki í byggð. Ég tel það skilyrði fyrir framþróun þessa lands sem ferðamannalands að byggðin haldi velli og eflist. Ég held að það sé líka skilyrði fyrir því að Ísland verði í framtíðinni ferðamannaland að við getum stundað okkar hefðbundnu atvinnuvegi og sýnt þá, að þeir ferðamenn sem vilja sækja landið heim geti séð hefðbundin störf landsmanna og við getum kynnt þau. Með því að viðhalda byggðinni, því að fólkið geti búið þar sem það vill búa, viðhöldum við söguþekkingu og þekkingu á staðháttum, sem eru ekki hvað minnst verðmæti fyrir ferðaþjónustuna í framtíðinni. Það eru því fjöldamörg rök fyrir því að styðja með öllum hætti þá þróun að efla smáfyrirtæki og meðalstór fyrirtæki í landinu.

Allir þekkja skoðanir mínar á sjávarútvegsmálum. Ég ætla ekki að gera þær að sérstöku umræðuefni hér en ég segi einfaldlega að sú samþjöppunarstefna atvinnutækifæranna sem átt hefur sér stað og allt stefnir í að verði áfram er í algerri andstöðu við stefnu okkar í Frjálslynda flokknum.

Tillagan sem hér er til umræðu í dag er tímabær að mínu viti. Hún mun vissulega verða til þess, ef samþykkt verður, að við stígum hér framfaraspor. Smærri fyrirtækin, m.a. í sjávarútvegi, eru viðbragðsfljótari, taka betur við sér og ná betra verði fyrir framleiðslu sína en t.d. stórfyrirtækin. Það er bara staðreynd málsins.

Það má auðvitað líka velta fyrir sér á hvaða vegi sú ríkisstjórn er sem stjórnar landinu í dag. Það er ekki tekið undir uppbyggingu og eflingu atvinnuþróunarfélaganna. Því hefur ekki verið hægt að finna stað í stefnu ríkisstjórnarinnar. Varðandi þá stefnumótun sem lagt var af stað með, m.a. með skógræktarverkefnum vítt og breitt um landið, Skjólskóga, Héraðsskóga o.s.frv., ætla menn að draga saman seglin. Það eru ekki sérstakar aðgerðir á prjónunum við að viðhalda og efla landbúnað úti um sveitir landsins, hvað þá úrvinnsluiðnað. Það er því af fjöldamörgu að taka sem þessi tillaga kemur inn á. Ég lýsi yfir stuðningi okkar í Frjálslynda flokknum við tillöguna.