Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:20:50 (701)

2002-10-17 15:20:50# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir undirtektirnar og reyndar einnig hv. 7. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni.

Ég er sammála hv. þm. um að að sjálfsögðu ber ekki síst í þessum efnum að horfa til þeirrar atvinnustarfsemi sem fyrir er, t.d. á landsbyggðinni, og nýsköpunar í kringum hana og innan þeirra greina. Þar er nú heldur betur og bærilega smáatvinnurekstur, ef við viljum nota það hugtak. T.d. er hvert einasta bú í landinu lítið atvinnufyrirtæki og lengi vel var það þannig í sjávarútvegi á Íslandi einnig að uppistaðan í íslenskum sjávarútvegi var starfsemi einyrkja, einstakra útgerðarmanna eða fjölskyldna. Það er líka rétt að þegar maður horfir til nýsköpunar, t.d. í íslenskri fiskvinnslu sem hefur lifað tímana tvenna og þar sem hefur orðið gríðarleg breyting á undanförnum árum og tugir fyrirtækja hafa horfið af sjónarsviðinu, fyrirtækja af meðalstærð, t.d. hefðbundin frystihús, hafa helst komið í staðinn ný smáfyrirtæki þar sem menn hafa eygt möguleika á því að gera verðmæti úr afskurði eða aukategundum sem áður voru lítt eða ekki nýttar. Að vísu hefur líka orðið uppbygging í fáum en mjög stórum og sérhæfðum og tæknivæddum vinnslustöðvum. Þannig má sækja heilmörg dæmi um nákvæmlega það sem hér er á dagskrá í þróunina í sjávarútveginum.

Í landbúnaði og nýrri atvinnustarfsemi í sveitum á þetta líka við. Við getum nefnt uppbygginguna í ferðaþjónustunni, þar sem nokkur hundruð lítil ferðaþjónustufyrirtæki hafa byggst upp á landsbyggðinni á undanförnum árum. Við getum jafnframt bent á tilraunir margra bænda til þess að gerast orkubændur. Þetta eru góð dæmi um nýsköpun á sviði atvinnumála í smáum stíl sem ég held að væri mjög hyggilegt að hlúa betur að.