Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:39:15 (703)

2002-10-17 15:39:15# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:39]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að hreyfa þessu máli. Ég held nefnilega að þetta sé liður í viðleitni okkar til að ná niður vöruverði í landinu, sérstaklega á matvælum og flutningi á vöru og þjónustu. Ég veit að hv. þm. er búinn að kafa djúpt ofan í þessi mál og flutningamálin eru náttúrlega stór þáttur í vandanum.

Þá komum við að þeirri þróun sem hv. þm. veit mætavel um. Stór og mikil fyrirtæki hafa keypt upp nánast öll flutningsfyrirtæki á landsbyggðinni með góðu eða illu. Þar hefur mönnum verið stillt upp við vegg, og ef ég veit rétt eru örfá sjálfstæð flutningsfyrirtæki starfandi utan við þessa blokk. Ef við tökum Norðurlandið er Kaupfélag Skagfirðinga sennilega eini aðilinn sem er með flutningsfyrirtæki þannig að þetta er gríðarlega fjölþætt mál.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann vilji ekki leggjast á sveif með okkur og skoða hvort þessi þróun hafi ekki leitt mjög til ills sem ég veit að hún hefur gert. Í framhaldi af samþjöppun þar sem sumir geta stillt öðrum upp við vegg varðandi flutning á vöru og þjónustu og iðnaðarvörum hefur orðið gríðarleg hækkun. Kerfisbreytingar hafa átt sér stað og örfá fyrirtæki eru orðin ein um hituna og geta nánast krafið menn um hvaða prís sem er til flutnings á vöru og þjónustu. Þarna er einn liður. Ég mun flytja ræðu á eftir og koma inn á ýmsa pósta, og ég trúi því að í mörgum atriðum séum við hv. þingmaður sammála um að á mörgum þáttum þurfi að taka og skoða í þessu samhengi. En samþjöppun í þessari þjónustu er að mínu mati mjög stór og veigamikill þáttur og snertir bæði flutning á matvöru út á landsbyggðina og ekki síður á vöru og þjónustu til og frá landsbyggðinni. Þá er það hráefni til iðnaðar og líka iðnaðarvörur til sölu á stærri markaði.