Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:43:44 (705)

2002-10-17 15:43:44# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:43]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bent á marga og mikilvæga þætti. Hv. þm. Kristján Möller kom inn á strandsiglingar. Þær voru afgerandi þáttur. En þegar við skoðum öll þessi mál í heild sinni sést að ýmislegt af þeim varningi sem er búið að færa upp á þjóðvegi landsins á alls ekki heima þar. Það er einvörðungu til þess að framkalla slit á vegum sem kostar hundruð milljóna á ári ef allt er reiknað til. Þessi mál þarf greinilega að skoða öll í heild sinni.

Ég bendi hv. þingmanni á og spyr hvort hann geti verið sammála okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði um það að skoða hreinlega möguleikana á því að endurvekja á vegum opinberra aðila strandsiglingar og skapa þannig aðhald varðandi vöruflutning til og frá landsbyggðinni, hvort sem það eru neysluvörur til almennings eða iðnaðarvarningur. Það urðu þáttaskil þegar Skipaútgerð ríkisins var lögð niður. Þá gerðist raunar það sama og er búið að gerast í landflutningunum. Tveir aðilar ráða nánast ferðinni og kannski má segja að einn aðili ráði ferðinni núna með þeim afleiðingum að iðnaðurinn úti á landi og náttúrlega allir vöruflutningar líða fyrir. Í þeirri fákeppni sem þróast hefur er þeim aðilum í þessum rekstri raunar gefið veiðileyfi á að innheimta gjöld í formi þjónustugjalda eins og þeim sýnist. Við þekkjum öll þróunina í skipaflutningum, við höfum heyrt í iðnrekendum okkar og við höfum heyrt í fiskverkendum og þar eru ekki fallegar sögur á ferðinni. Til einhverra mótaðgerða þarf að grípa. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti aðhyllst fyrir sína parta og fyrir hönd síns flokks möguleika á skoðun á svona mótvægisaðgerðum gagnvart þeirri fákeppni sem nú ríkir.